Innlent

Kergja í Hornfirðingum vegna heimagistingar

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Vaxandi fjöldi ferðamanna sækir Hornafjörð heim þar sem menn hafa jafnvel flutt úr húsum sínum til að geta selt gistingu.
Vaxandi fjöldi ferðamanna sækir Hornafjörð heim þar sem menn hafa jafnvel flutt úr húsum sínum til að geta selt gistingu. Fréttablaðið/Pjetur
„Það er svolítil kergja hér í samfélaginu út í þennan gistimöguleika,“ segir Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri í Hornafirði, þar sem bæjaryfirvöld hafa sett þrengri takmarkanir á fjölda rýma í heimagistingu en lög gera ráð fyrir.

Vorið 2014 settu Hornfirðingar inn ákvæði í aðalskipulag um að í þéttbýli mætti aðeins nýta tvö rými í hverri íbúð undir heimagistingu. Björn segist ekki vita um slíka skilmála í aðalskipulagi annarra sveitarfélaga. Samkvæmt lögum geti heimagisting verið í allt að tíu rýmum fyrir sextán manns.

„Menn voru hræddir um að þetta gæti verið ansi mikið inngrip í eignarrétt og atvinnufrelsi. Frekar en að bíða eftir því að einhver færi kannski í mál fannst mönnum eðlilegt að reyna að rýmka þetta og þess vegna hækkuðum við þetta upp í fjögur rými,“ segir Björn með vísan til þess að bæjarstjórnin hefur nú víkkað rammann.

Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri á Hornafirði, segir skilmála sveitarfélagsins hafa lítil heftandi áhrif á núverandi húseigendur.
„Menn telja lagaumhverfinu og eftirlitinu hjá löggjafanum verulega ábótavant og að menn séu kannski komnir út fyrir anda þessara laga frá þessum tíma. Við höfum horft upp á það hér að fólk er jafnvel að flytja út úr húsum; er skráð með lögheimili en býr ekkert í húsinu vegna þess að það er að leigja hvert einasta herbergi,“ segir bæjarstjórinn.

Þrátt fyrir að Hornfirðingar setji enn mun þrengri skorður við heimagistingu en lög gera ráð fyrir óttast Björn ekki lögsóknir úr þessu.

„Þótt lögin segi tíu rými þá ættu nánast allir að geta fullnýtt það húsnæði sem þeir eiga með fjórum rýmum. Við erum að horfa á þá staðreynd að 97 eða 98 prósent húsa á Hornafirði eru með þrjú til fimm svefnherbergi. Þannig að þetta á í raun að hafa sáralítil heftandi áhrif á þá húseigendur sem vilja nýta núverandi húsnæði sitt,“ segir Björn.

Að sögn bæjarstjórans hefur ekki orðið mikil uppbygging á nýjum gistimöguleikum í þéttbýli á Hornafirði þótt gífurleg uppbygging hafi orðið á gistirými í sveitarfélaginu í heild. „Margir telja eðlilegt að ferðaþjónustan byggi sjálf en taki ekki íbúðarhúsnæði undir sig,“ segir hann.

Angi af þessu máli er ný samþykkt bæjarstjórnar um niðurfellingu á gatnagerðargjöldum á íbúðalóðum sem þegar eru tilbúnar á Höfn. Björn segir að fyrir þá sem vilja koma á Höfn sé torvelt að fá leiguhúsnæði. „Þessi niðurfelling er háð því að ekki má nýta húsnæðið næstu þrjú ár í ferðaþjónustu – nema þá að greiða gatnagerðargjöldin,“ segir bæjarstjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×