Skoðun

Kerfið stjórnar

Gunnlaugur Stefánsson skrifar
Kerfin eiga að þjóna fólkinu. En það getur breyst fljótt, ef kerfið er farið að snúast um að viðhalda sjálfu sér. Þá verður til skipulag með innbyggðum hvata um að verja fjárhagslega stöðu sína óháð þjónustunni við fólkið. Þar skapast lítið svigrúm svo hjartað megi einhverju ráða. Hér er ekki við starfsfólkið að sakast sem líður líka fyrir kerfishyggjuna.

Margrét var rúmlega áttræð. Á einu ári var hún flutt þrisvar sinnum með sjúkrabifreið meðvitundarlítil af heimili sínu á bráðamóttökuna á Landspítalanum. Þar var alltaf tekið á móti henni af alúð. Eftir nákvæma skoðun var aðstandendum sagt að hún þjáðist af vannæringu og ofþornun. Síðan var henni komið fyrir á deild á sjúkrahúsinu. Það tók Margréti drjúgan tíma að safna þreki á ný og á meðan gat hún ekki verið heima hjá sér. Á einu ári dvaldi Margrét á sex heilbrigðisstofnunum á höfuðborgarsvæðinu, stundum með viðdvöl heima hjá sér á milli flutninga.

En allar nýjar innlagnir áttu sameiginlegt, að á móti henni var tekið eins og hún hefði aldrei verið í samskiptum við heilbrigðiskerfið. Sömu spurningar, nýgerðar rannsóknir endurteknar, fleiri skýrslur, aftur og aftur, jafnvel þó hún hafi verið flutt beint af einni sjúkradeild á aðra. Múrar á milli stofnana og deilda voru rammgerðir. Hvergi nokkurs staðar var að finna aðila í kerfinu sem bar ábyrgð með heildarsýn yfir samskipti Margrétar við heilbrigðiskerfið. Mikið er nú íslenska heilbrigðiskerfið vel efnum búið að geta stundað svona rekstur.

Seint um síðir komst Margrét í gegnum frumskóg kerfisins til varanlegrar dvalar á heimili aldraðra og bjó þar við ágæta heilsu um árabil. Þar var séð um að hún fengi nóg að borða og drekka, naut tómstunda og samfélags. Fólkið að störfum hafði svigrúm til að leyfa hjartanu að slá með heimilisfólki, skynja þarfir þess og aðstæður, en lét ekki flókna kerfiskróka stjórna öllum háttum og skipulagi.

Væri ekki ráð, að horfa sér nær og spyrja stundum hvort kerfið sé æðra en þjónustan við fólkið? Það gæti kannski líka leitt til þess að fjármunir nýttust betur.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×