Enski boltinn

Keown sér enn þá eftir því að Zlatan samdi ekki við Arsenal um aldamótin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan Ibrahimovic er búinn að skora 26 mörk fyrir Manchester United.
Zlatan Ibrahimovic er búinn að skora 26 mörk fyrir Manchester United. vísir/getty
Martin Keown, fyrrverandi miðvörður Arsenal sem nú starfar sem sparkspekingur BBC, er enn þá í rusli yfir því að Arsene Wenger náði ekki að ganga frá kaupum á Zlatan Ibrahimovic fyrir 17 árum síðan.

Zlatan, sem nú er að slá í gegn með Manchester United, var boðið á reynslu til Arsenal árið 2000 þegar hann var 19 ára gamall leikmaður Malmö og flestir sáu að þarna var einstakur leikmaður á ferð.

Sænski framherjinn hefur verið meðvitaður um eigið ágæti frá unga aldri og hafði engan áhuga á að fara á reynslu til nokkurs liðs. Hann hafnaði boðinu og gekk í raðir Ajax ári síðar.

„Ég sé enn þá eftir því að Zlatan gekk aldrei í raðir Arsenal,“ segir Martin Keown, sem varð þrisvar sinnum Englandsmeistari með Skyttunum, í pistli sínum í Daily Mail.

„Hann heimsótti félagið árið 2000 sem unglingur. Hann var svo stór og sterkur að strákarnir í liðinu grínuðust með að hann væri að koma til að leysa mig af í miðvarðarstöðunni.“

„Maður sá meira að segja þá hversu flottur leikmaður þetta var. Nú þegar hann er að slá í gegn hjá Manchester United er ekki hægt að komast hjá því að bera hann saman við Eric Cantona,“ segir Keown.

Arsenal-maðurinn fyrrverandi er ekki fyrsti maðurinn til að bera Zlatan saman við Cantona en hann segir þá ekki vera mjög líka innan vallar.

„Cantona var snjall leikmaður en mér leið aldrei eins og hann myndi stinga mig af. Þegar maður var með Cantona í sigtinu vissi ég að ég gat ráðið við hann. Það er allt annað að reyna að stöðva Zlatan, maður á mann. Hann er stærri, sterkari og kraftmeiri,“ segir Martin Keown.


Tengdar fréttir

Zlatan færði Man Utd bikar

Þrátt fyrir að hafa bara spilað með Manchester United í sjö mánuði er Zlatan Ibrahimovic kominn í guðatölu á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×