Lífið

Kennedy var fyrirmyndin

Framboðsmynd Björns Jóns Bragasonar hefur vakið talsverða athygli. Myndin krafðist ekki mikils undirbúnings, enda er hún tekin heima hjá Birni Jóni.
Framboðsmynd Björns Jóns Bragasonar hefur vakið talsverða athygli. Myndin krafðist ekki mikils undirbúnings, enda er hún tekin heima hjá Birni Jóni.
„Þetta er bara ég við skrifborðið heima og bókasafnið mitt á bak við,“ segir Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og laganemi.

Björn Jón gefur kost á sér til formennsku í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Hann sendi tilkynningu þess efnis til fjölmiðla í vikunni og vakti myndin sem fylgdi mikla athygli. Þar sést Björn sitja við skrifborð í smekklegum jakkafötum með gleraugu í höndunum. Fyrir framan hann er blekbytta, stimpill og fleiri tól sem ungt fólk í dag notar eflaust ekkert sérstaklega mikið. Þrátt fyrir það segir Björn að uppstillingin hafi ekki krafist mikils undirbúnings.

„Góður félagi minn, sem er reyndar kvikmyndatökumaður, tók myndina. Hann heitir Ingvar Guðmundsson. Þetta er bara skrifborðið heima og ég er í nokkuð eðlilegu umhverfi,“ segir Björn. „Hann raðaði dótinu þannig að þetta harmóneraði vel saman. Hann var búinn að pæla í uppstillingum og skoða myndir af Kennedy, en ég var voða lítið inni í þeim pælingum. Ég held að hann hafi verið að hugsa eitthvað svoleiðis. Það er verið að búa til einhvern virðuleika, en þetta eru mjög eðlilegar aðstæður. “

Blekbyttan á borðinu vakti sérstaka athygli, en þær eru sjaldgæfar í dag – ekki síst á skrifborðum manna sem eru rétt að skríða yfir þrítugt.

Er blekbyttan í notkun?

„Já, ég skrifa alltaf með sjálfblekungi. Ég vandist á það fyrir mörgum árum og finnst það þægilegra.“

Myndirðu þá segja að þú værir af gamla skólanum?

„Ég er nú mjög frjálslyndur í skoðunum, er formaður Frjálshyggjufélagsins og er langt frá því að vera íhaldssamur í stjórnmálaskoðunum.“

En notar það sem virkar í ritföngum?

„Já, akkúrat.“

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×