Innlent

Kennari fær 200 þúsund krónur vegna eineltis skólastjóra

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Grunnskóli Grindavíkur
Grunnskóli Grindavíkur
Hæstiréttur dæmdi Grindavíkurbæ í dag til að greiða kennara í Grunnskóla Grindavíkur 200 þúsund krónur í miskabætur vegna eineltis af hálfu skólastjóra.

Kennarinn kvartaði yfir eineltinu í október árið 2011 og voru þrír sálfræðingar fengnir til að meta hvort skólastjórinn hefði lagt kennarann í einelti. Þeir sögðu svo vera en bættu við að eineltismálið væri þó hluti af stærra vandamáli sem hefði ríkt á vinnustaðnum sem hélst í hendur við hagræðingaraðgerðir í rekstri bæjarins.

Þó svo að kennarinn væri í stöðu þolanda þá væri ýmislegt í framkomu hans talið aðfinnsluvert í málinu. Viðurkenndi kennarinn að hafa svarað fyrir sig og ekkert verið að liggja á skoðunum sínum um að hann teldi ráðstafanir skólastjóra ómálefnalegar.

Hafi framkoma hans stangast á við lög þar sem hann gætti ekki kurteisi og lipurðar gagnvart samstarfsfólki, heldur ól, samkvæmt því sem fram kom í dómnum, á flokkadráttum sem risið höfðu. Af þessum sökum varð kennarinn að bera ábyrgð á helmingi miska síns. 


Kennarinn höfðaði mál til að krefjast bóta og var Grindavíkurbæ gert að greiða kennaranum 400.000 í Héraðsdómi Reykjaness. Bærinn áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar sem lækkaði miskabæturnar í 200.000 krónur.  

Dóminn má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×