Innlent

Kennarar taka undir áhyggjur foreldra af skóla án aðgreiningar

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Foreldrar barna með námserfiðleika eru ósáttir við almenna grunnskólakerfið.
Foreldrar barna með námserfiðleika eru ósáttir við almenna grunnskólakerfið. Vísir/AFP
Skóli án aðgreiningar, innistæðulaus mannúð, heitir ritgerð sem Olga Huld Gunnarsdóttir, meistaranemi í félagsráðgjöf gerði. Ritgerðin fjallar um reynslu og upplifun foreldra barna með námserfiðleika á stuðningi í grunnskólum.

Niðurstöðurnar eru í stuttu máli þær að foreldrar upplifi skólastefnuna sem fallega hugmyndafræði sem þó sé innistæðulaus enda vanti fjármagn og aukið aðgengi að fagfólki. Því hafi foreldrar þurft að berjast ítrekað fyrir réttindum barna sinna í almennum grunnskóla.

Ólafur Loftsson formaður félags grunnskólakennara segir könnun hafa verið gerða meðal kennara þar sem spurt var hvernig þeim litist á skólastefnuna og svörin hafi verið í svipuðum dúr.

„Menn eru fylgjandi stefnunni sem slíkri en þessu fylgir ekki nægur tími eða fjármunir. Það vantar að menn hafi skipulagt í upphafi hvað þeir ætluðu með þessari stefnu, hvernig ætti að framkvæma hana og hvað þeir ætla að fá út úr þessu. Þetta hefur legið fyrir lengi og kemur ekki á óvart," segir Ólafur Loftsson formaður félags grunnskólakennara.

Á síðasta ári voru birtar niðurstöður hóps sem gerði greiningu á framkvæmd stefnunnar fyrir hönd menntamálaráðuneytisins. Í stuttu máli rímuðu þær niðurstöður við reynslu foreldra og kennara. Í framhaldi var ákveðið að Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir gerði úttekt á stefnunni. Þær niðurstöður hafa ekki verið birtar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×