Skoðun

Kennarar eiga skilið að fá laun samkvæmt menntun og ábyrgð

Guðrún Kjartansdóttir skrifar
Nú er ég nýútskrifuð sem grunnskóla- og framhaldsskólakennari og var að hefja störf sem grunnskólakennari í haust. Mér líður vel í vinnunni og finnst þetta mjög gaman. Ég kenni stundum yfir 130 nemendum á dag og ber því mikla ábyrgð. Ég vinn til kl. 16 á daginn, nema á föstudögum og hef líka unnið á kvöldin heima. Ég legg mig fram um að vera góður kennari og koma efninu sem best til skila til nemenda, ásamt því að hafa fjölbreytta kennsluhætti.

Ég kvarta ekki undan starfinu mínu, því mér finnst það skemmtilegt. Það er frekar sérstakt að vera að hefja starf sem grunnskólakennari á þessum tíma. Kennarar sem hafa kennt í einhvern tíma eru ósáttir við launin. Margir eru ósáttir við viðveruna og vinnumat. Ég get ekki myndað mér of mikla skoðun á þessum fyrrgreindu atriðum, nema laununum. Mér finnst sanngjarnt að nýútskrifaður kennari eigi að fá grunnlaun upp á 500.000 kr. Miðað við þá prósentuhækkun sem kennurum býðst núna myndu launin mín hækka um sirka 44.000 kr. Það nær ekki upp í 500.000, heldur er nær 400.000 kr.

Ég sem kennari þarf að hafa þak yfir höfuðið, kaupa í matinn, reka bíl og kaupa tryggingar eins og flestir aðrir. Útgjöld einstaklinga á fyrrgreindum atriðum hafa hækkað eins og margt annað í samfélaginu.



Ef við lítum til menntunarinnar, að breyta náminu í 5 ára nám, þá þarf að endurskoða bæði lengdina á náminu sem og innihaldið. Ég er með BA-próf í uppeldis- og menntunarfræði, en mastersnámið skilaði því miður ekki mikilli nýbreytni. Mér og grunnskólakennaranemum fannst þetta mikil upprifjun á námssálfræði, aðferðafræði og fleiru. Launin hækka svo í þokkabót lítið miðað við að taka masterinn.

Mér finnst sorglegt að sjá þessa reiði og vonleysi í kennurum sem þeir búa yfir í dag. En hins vegar skil ég þá að einhverju leyti.



Ég vona svo innilega að launin og kennaramenntunin breytist í jákvæða átt fyrir kennara svo samfélagið geti haldið í kennara í stéttinni og fengið einstaklinga í kennaranámið.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×