Fótbolti

Kenna sultunni um sjálfsmark aldarinnar | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sammy Ndjock var aðeins of fljótur út á völl eftir að fá sér samloku með sultu.
Sammy Ndjock var aðeins of fljótur út á völl eftir að fá sér samloku með sultu. mynd/skjáskot
Kamerúnski markvörðurinn Sammy Ndjock, sem ver mark Minnesota United í NASL-deildinni í Bandaríkjunum, varð að Youtube-stjörnu í gær þegar ævintýralegt sjálfsmark hans í æfingaleik gegn enska liðinu Bournemouth fór eins og eldur í sinu um netheima.

Ndjock skoraði annað mark Bournemouth af fjórum þegar honum tókst að kasta boltanum í eigið net í fyrri hálfleik, en vandræðalegt hlaup hans á eftir boltanum og senurnar þegar hann situr uppi með boltann inn í netinu eru meira en lítið fyndnar.

Allir stærstu fréttamiðlar heims skrifuðu um mistök Kamerúnans sem var maður leiksins í deildarleiknum á undan þar sem hann hélt hreinu gegn Indy Eleven í NASL-deildinni.

Markið má sjá eftir tvær mínútur og fimmtán sekúndur:


Minnesota United er búið að gera frábærlega í að verja sinn mann en í staðinn fyrir að fara í vörn og vera með leiðindi er bandaríska félagið búið að snúa þessu sjálfsmarki aldarinnar upp í gott grín.

Tekið var upp stutt atriði sem átti að hafa gerst skömmu fyrir leik þar sem Ndjock er að smyrja sér samloku með sultu og hnetusmjöri en það er þjóðarsamloka Bandaríkjamanna.

Sultan á að hafa farið á hanska kamerúnska markvarðarins og var herferðin því skírð „kenndu sultunni um“. Notast er við kassamerkið #BlameItOnTheJelly.

Myndbandið var birt á Twitter-síðu Minnesota United í gær þar sem félagið kom með opinberlega yfirlýsingu: „Bíðið alltaf í að minnsta kosti 30 mínútur með að fara út á völl eftir að þið eruð búin að borða samlokur með sultu.“

Minnesota-liðið bað svo stuðningsmenn sína og aðra um að segja vandræðalegar sögur af sér á Twitter með kassamerkinu #BlameItOnTheJelly og lofaði að endurtísta þeim þannig allir gætu séð.

Þar komu nokkrar ansi skemmtilegar sögur eins og af einum sem kveikti í sófanum heima hjá sér eftir að eyðileggja lampa sem móðir hans var nýbúin að kaupa.

Annar kýldi sig í magann með þráðlausum bor eftir að stilla hann á hæstu stillingu og annar braut míkrófóninn sinn á XBox-tölvunni eftir að missa niður tveggja marka forskot í tölvuleiknum FIFA. Allir kenndu þeir sultunni um eins og sjá má.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×