Erlent

Kenna skorti á samvinnu frá Bandaríkjunum um fall Palmyra

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá fornum rústum í Palmyra sem ISIS-liðar eyðilögðu.
Frá fornum rústum í Palmyra sem ISIS-liðar eyðilögðu. Vísir/EPA
Rússar segja að skortur á samvinnu frá Bandaríkjunum hafi leitt til þess að vígamenn Íslamska ríkisins hafi náð borginni Palmyra aftur úr höndum stjórnarliða í Sýrlandi. Talsmaður ríkisstjórnarinnar í Moskvu sagði nú í morgun að Bandaríkin vildu ekki starfa með Rússlandi, en hægt hefði verið að koma í veg fyrir árásina með samvinnu.

Þá sagði hann að vígamenn ISIS hafi verið að streyma inn í Sýrland frá Írak að undanförnu. Fjöldi vígamanna eru sagðir hafa flúið frá borginni Mosul, þar sem stjórnarher Írak og bandamenn þeirra berjast gegn samtökunum.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, gaf í skyn að vígamönnum hefði verið leyft að flýja frá Mosul til Sýrlands. Markmiðið hefði verið að draga úr þrýstingi á uppreisnarhópa í borginni Aleppo.

Stjórnarher Sýrlands og Rússar eru þó ekki þeir einu sem berjast gegn Íslamska ríkinu í Sýrlandi og hafa þeir jafnvel verið gagnrýndir fyrir að einbeita sér um of að uppreisnarhópum.

Kúrdar í Sýrlandi berjast gegn ISIS með stuðningi Bandaríkjanna og sækja þeir nú að Raqqa, höfuðvígi ISIS. Þar að auki sækja Tyrkir og uppreisnarhópar gegn ISIS norðaustur af Aleppo. Þar berjast þeir nú við vígamenn um borgina Al Bab.

Sjá einnig: ISIS-liðar náðu skriðdrekum og skotvopnum í Palmyra.

Hernaðaryfirvöld í Bandaríkjunum segja Rússa hafa litið hjá Palmyra þar sem þeir hefðu verið uppteknir við að gera loftárásir á Aleppo. 

Uppfært: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar stóð Aleppo í stað Palmyra í fyrirsögn. Það voru mistök og hafa verið leiðrétt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×