Fótbolti

Kemur til greina að gefa mark en ekki víti þegar varið er með hendi á línu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luis Suárez kom Úrúgvæ í undanúrslitin á HM 2010.
Luis Suárez kom Úrúgvæ í undanúrslitin á HM 2010. vísir/getty
Þeir sem sjá um reglubreytingar og dómaramál í heimsfótboltanum eru með til skoðunar þessa dagana að gera stóra breytingu á þegar leikmenn verja með hendi á línu.

Hingað til hefur viðkomandi leikmanni sem gerist sekur um slíkt athæfi verið rekinn af velli og vítaspyrna dæmd.

Nú skoða menn þann möguleika að gefa einfaldlega vítamark en ekki vítaspyrnu. Það þýðir að ef leikmaður ver með hendi á línu fær hitt liðið einfaldlega mark skráð.

Nefnt er dæmið þegar Luis Suárez varði með hendi á línu í leik Úrúgvæ og Gana í átta liða úrslitum HM 2010. Vítaspyrna var dæmd sem Asamoah Gyan klúðraði og Úrúgvæ komst á endanum í undanúrslitin eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni.

David Elleray, fyrrverandi besti dómari ensku úrvalsdeildarinnar, er nú einn af yfirmönnum nefndar innan FIFA sem fer yfir þessi mál. Hann segir að vítamörkin séu raunverulegur möguleiki en myndbandsdómarar gætu hjálpað við að koma reglubreytingunni í gagnið.

„Nefndin er að skoða 25 hluti í fótboltanum með þeim tilgangi að gera leikinn sanngjarnari og að verja boltann með hendi er einn af þeim,“ segir David Elleray.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×