Íslenski boltinn

Keflavík stal stigi á lokamínútunum | Þór vann fyrsta sigurinn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Keflvíkingar náðu að bjarga stigi fyrir austan.
Keflvíkingar náðu að bjarga stigi fyrir austan. Vísir/stefán
Keflavík náði að stela stigi á útivelli gegn Fjarðarbyggð í dag þrátt fyrir að hafa verið 0-2 undir þegar tíu mínútur voru til leiksloka en Magnús Þórir Matthíasson skoraði jöfnunarmark Keflvíkinga á 87. mínútu.

Fjarðarbyggð komst yfir í fyrri hálfleik og virtist Haraldur Þór Guðmundsson hafa tryggt þeim sigurinn korteri fyrir leikslok með öðru marki austanmanna.

Keflvíkingar neituðu hinsvegar að gefast upp og eftir að Einar Orri Einarsson minnkaði muninn náði Magnús að jafna metin skömmu síðar í stöðunni 2-2.

Þurftu liðin því að sætta sig við jafntefli og sitja því áfram um miðja deild eftir þrjár umferðir, Keflavík með fimm stig en Fjarðarbyggð fjögur.

Í Kórnum vann Þór fyrsta leik sinn í Inkasso-deildinni á þessu tímabili gegn HK 2-1 en Agnar Sverrisson skoraði sigurmark Þórsara á 84. mínútu eftir að Ísak Óli Helgason hafði jafnað metin fyrir HK stuttu áður.

Var þetta annar tapleikur HK í röð sem er í fallsæti eftir þrjár umferðir en Þórsarar lyftu sér upp í 7. sætið með sigrinum. Þá komust nágrannar Þórsara í KA aftur á sigurbraut með 2-1 sigri á Huginn á heimavelli.

Úrslit dagsins:

Fjarðarbyggð 2-2 Keflavík

HK 1-2 Þór

KA 2-1 Huginn

Upplýsingar um markaskorara koma frá Urslit.net




Fleiri fréttir

Sjá meira


×