Körfubolti

Keflavík nældi í lykilleikmann Hamarsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marín Laufey Davíðsdóttir.
Marín Laufey Davíðsdóttir. Vísir/ÓskarÓ
Kvennalið Keflavíkur fékk mikinn liðstyrk í gær þegar Marín Laufey Davíðsdóttir samdi til tveggja ára en hún átti mjög gott tímabil með Hamar í Dominos-deild kvenna í körfubolta í vetur. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Keflavíkur.

Marín Laufey Davíðsdóttir er 18 ára gamall framherji (verður 19 ára í maí) sem var með tvennu að meðaltali með Hamar í vetur, skoraði 12,2 stig og tók 11,0 fráköst að meðaltali í leik. Marín sýndi hvað hún gat í leikjunum á móti Keflavík þar sem hún var með 15,8 stig að meðaltali í leik.

„Marín Laufey, sem leikið hefur með Hamri síðastliðin ár er mikill baráttujaxl og mun hún sannarlega koma til með að styrkja Keflavíkurliðið mikið, þá sérstaklega varnarlega og í frákastabaráttunni undir körfunni," segir í frétt á heimasíðu Keflavíkur.

Það voru aðeins þrír íslenskir leikmenn í deildinni með fleiri tvennu en Marín í deildarkeppninni og einn þeirra var Keflvíkingurinn Bryndís Guðmundsdóttir. Þær tvær ættu því að mynda flott tvíeyki inn í teig á næsta tímabili.

Keflvíkingar hafa verið duglegir að semja við sína leikmenn en á heimasíðu Keflavíkur kemur fram að þær Ingunn Embla Kristínardóttir, Sandra Lind Þrastardóttir, Lovísa Falsdóttir, Katrín Fríða Jóhannsdóttir sem og tvíburasysturnar Bríet Sif Hinriksdóttir og Sara Rún Hinriksdóttir hafa allar gert nýjan tveggja ára samning.

Marín Laufey Davíðsdóttir er öflug í fráköstunum.Vísir/Daníel



Fleiri fréttir

Sjá meira


×