Erlent

Kebab orðið að pólitísku bitbeini í Frakklandi

Atli Ísleifsson skrifar
Um 10.200 kebabstaðir séu nú starfræktir í Frakklandi.
Um 10.200 kebabstaðir séu nú starfræktir í Frakklandi. Vísir/AFP
Kebab er orðið að pólitísku deilumáli í Frakklandi. Fulltrúar hægri öfgaflokksins Front National segja vinsældir kebabsins skýrt merki um „íslamsvæðingu“ landsins.

Í frétt Reuters segir að fjórir kebabstaðir hafi opnað í Blois í Loire-dalnum í síðasta mánuði. Liðsmenn Front National segjast allt annað en ánægðir með þróunina. „Sögulegur miðbær Blois, gimsteinn franskrar sögu, er að breytast í austurlenska borg.“

Þjóðerniskennd Frakka er nátengd mat og list og segir Front National útbreiðslu kebabstaða skýrt merki um íslamsvæðingu landsins. Í kosningaherferðum flokksins fyrr á árinu var þróunin harðlega gagnrýnd og töluðu frambjóðendur flokksins um „kebabsvæðingu“ landsins.

Front National hefur einnig gagnrýnt útbreiðslu halalkjöts, sem þeir segja brjóta í bága við franskar hefðir.

Thibaut Le Pellec, talsmaður síðunnar KebabFrites.com sem gefur mismunandi kebabstöðum í Frakklandi einkunn, segir í viðtali við Reuters að matrétturinn sé orðinn að einkennistákni fyrir þau vandamál sem landið á við að stríða. „Að ákveðnu leyti endurspeglar kebabinn öll þau vandamál sem tengjast innflytjendum og aðlögun þeirra að frönsku samfélagi.“

Um 10.200 kebabstaðir séu nú starfræktir í Frakklandi, en rétturinn sjálfur er uppruninn í Mið-Austurlöndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×