Enski boltinn

Keane: Hefði getað afhausað Eið Smára

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Í nýútkominni ævisögu Roy Keane, The Second Half, rifjar hann upp þegar Jose Mourinho stýrði sínum fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni. Það var haustið 2004 og Eiður Smári Guðjohnsen tryggði Chelsea 1-0 sigur á Manchester United á Stamford Bridge.

„Þetta var fyrsti leikur Mourinho í enskri knattspyrnu. Ég man eftir markinu og mikilvægi þess. Mourinho var þegar orðinn „Sá sérstaki“ og sigur gegn okkur færði liðinu sjálfstraust og kom því á góðan skrið,“ segir í bókinni en Chelsea varð Englandsmeistari þetta vor eftir hálfrar aldar bið.

„Ekki gleyma því að Chelsea varð í öðru sæti deildarinnar síðasta tímabili á undan - áður en Mourinho tók við.“

Markið sem Eiður Smári skoraði kom strax á fimmtándu mínútu leiksins. Chelsea komst í skyndisókn og Didier Drogba skallaði sendingu Geremi frá hægri kantinum yfir Roy Keane sem spilaði sem miðvörður í leiknum. Eiður Smári tímasetti hlaupið hárrétt, lyfti boltanum yfir Tim Howard í markinu og ýtti honum yfir línuna - með Keane í bakinu.

„Hefði ég getað afhausað Guðjohnsen þegar hann kláraði færið? Kannski,“ sagði Keane enn fremur en hann viðurkenndi að Chelsea hafi verið sterkari aðilinn í leiknum.

„Tímabilið endurspeglaðist í þessum leik. Chelsea var betra liðið í þessum leik en við vorum óheppnir. Það munaði litlu og við vorum ekki lélegir. Við vorum þó alltaf að elta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×