Enski boltinn

Kaupverð Ings ákveðið í gerðardómi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Enska úrvalsdeildin hefur beðið forráðamenn Liverpool og Burnley að skila inn gögnum vegna máls Danny Ings, sóknarmanns fyrrnefnda liðsins.

Ings kom frá Burnley í sumar eftir að samningur hans við félagið rann út. En þar sem hann er ekki orðinn 24 ára gamall á Burnley rétt á greiðslu fyrir hann samkvæmt reglum deildarinnar.

Sjá einnig: Burnley græðir á því að Ings hafi spilað landsleik

Félögin gátu hins vegar ekki komið sér saman um upphæð. Liverpool mat það svo að Ings væri sex milljóna punda virði en Burnley sættir sig ekki við minna en tíu milljónir. Burnley fullyrðir að það hafi verið sú upphæð sem Tottenham hafi verið reiðubúið að greiða.

Málið verður því útkljáð í gerðardómi sem kemur saman snemma á nýju ári. Ings, sem vann sér sæti í byrjunarliði Liverpool í upphafi tímabils, spilar þó líklega ekki meira á tímabilinu eftir að hann sleit krossband í hné á fyrstu æfingu Liverpool undir stjórn Jürgen Klopp.

Sjá einnig: Ings ekki meira með Liverpool á tímabilinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×