Viðskipti innlent

Kaupfélag Skagfirðinga hagnast um 2,1 milljarð

ingvar haraldsson skrifar
Höfuðstöðvar Kaupfélags Skagfirðinga á Sauðárkróki.
Höfuðstöðvar Kaupfélags Skagfirðinga á Sauðárkróki. vísir/pjetur
Kaupfélag Skagfirðinga hagnaðist um 2,1 milljarð króna á síðasta ári. Það er aukning um 400 milljónir frá árinu 2013 þegar hagnaðurinn nam 1,7 milljarði. Héraðsmiðilinn Feykir greinir frá þessu.

Í inngangsorðum að ársskýrslu félagsins fyrir árið 2014, sem Feykir hefur undir höndum, segir Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri að rekstur fyrirtækisins hafi gengið vel á árinu 2014. Heildarvelta þess var tæpir 27 milljarðar, sem er lækkun um 1,5 milljarða frá fyrra ári. Þórólfur segir lækkunina stafa af minni veltu í sjávarútvegi vegna þess að togarinn Örvar SK-2 var seldur í upphafi árs og togarinn Málmey SK-1 var frá veiðum síðustu fjóra mánuði ársins vegna breytinga.

Jafnframt varð samdráttur í sölu kjötafurða, sem Þórólfur segir helst skýrast af því að stór kaupandi sem keypt hafi um 500 tonn af afurðum í sláturtíð undanfarin ár, hafi ekki gengið ekki frá kaupum á árinu.

Eigið fé Kaupfélagsins nemur 23,7 milljörðum króna og er eiginfjárhlutfall um 68%. „Efnahagur er því góður og rekstur að skila góðum afköstum. Að geta fjárfest verulega á síðustu árum en lækka jafnframt skuldir má telja til forréttinda.  Félagið hefur því góða stöðu til að takast á við ný verkefni og bæta og endurnýja tækjabúnað,“ segir Þórólfur í skýrslunni.

Helstu fjárfestingar félagsins á árinu voru uppbygging þurrkstöðvar á vegum FISK-Seafood hf. á Sauðárkróki, sem lauk í byrjun árs 2015 og breytingar á togaranum Málmey SK-1 úr frystitogara í ferskfisktogara. Þá var samið um nýsmíði á togara fyrir FISK-Seafood í Tyrklandi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×