Innlent

Kattafló greinist á Suðurlandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þessar kisur eru vonandi ekki með kattafló.
Þessar kisur eru vonandi ekki með kattafló. vísir/getty
Kattafló fannst á ketti á Suðurlandi í liðinni viku en það er fyrsta staðfesta greiningin á flónni utan höfuðborgarsvæðisins. Í tilkynningu frá Matvælastofnun kemur fram að kattaflóin sé nýr landnemi hér á landi sem hafi fyrst greinst hér síðastliðinn vetur. Flóin getur bæði valdið dýrum og mönnum miklum óþægindum og jafnvel veikindum.

„Dýralæknir hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands tilkynnti Matvælastofnun í síðustu viku um grun um kattafló á köttum á býli í Flóanum. Flær voru sendar til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands á Keldum sem staðfesti að um kattafló væri að ræða. Matvælastofnun rannsakar nú hvernig flóin getur hafa borist á býlið og hvort hún leynist á köttum eða hundum sem tengjast býlinu. Jafnframt er í undirbúningi samræmd meðhöndlun á dýrum á býlinu sem flóin greindist á og tengdum heimilum,“ segir í tilkynningu MAST.

Stefna stofnunarinnar er að uppræta kattafló og hindra að hún nái fótfestu hér á landi. Þar af leiðandi er mikilvægt að katta- og hundaeigiendur sem og dýralæknar séu vel á varðbergi og sendi Matvælastofnun tilkynningu ef grunur leikur á smiti.

„Flóin er það stór að auðvelt er að sjá hana með berum augum, en hún hreyfir sig hratt og því getur verið erfitt að koma auga á hana á dýrum með þéttan eða dökkan feld. Oft er auðveldara að sjá saur flónna en hann minnir helst á sandkorn í feldinum. Kláði getur verið mismikill og hjá sumum dýrum alls ekki áberandi. Önnur dýr geta sýnt ofnæmisviðbrögð við flóabitunum og fá sár og skorpur í húðina sem svo geta sýkst og einkennin líkjast þá exemi eða húðsýkingu. Góð leið til að skoða hvort dýrið sé smitað af flóm er að láta það standa á hvítu laki og nota t.d. lúsakamb og kemba í gegn um feldinn,“ segir í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×