Fótbolti

Katrín um Föru Williams: Hún er hæfileikaríkasti leikmaður sem ég hef spilað með

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Williams er leikjahæsti leikmaður í sögu enska landsliðsins með 145 landsleiki.
Williams er leikjahæsti leikmaður í sögu enska landsliðsins með 145 landsleiki. vísir/getty
Enska landsliðið mætir heimsmeisturum Japan í undanúrslitum HM í Kanada í kvöld.

Enska liðið hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir góða frammistöðu á HM og áhuginn heima fyrir hefur aukist til muna.

Sjá einnig: Katrín: Enska liðið er ekkert ósvipað því íslenska.

Fara Williams, einn besti leikmaður Englands, er samherji Katrínar Ómarsdóttir hjá Liverpool. Katrín segir hana gríðarlega öflugan leikmann þótt hún sé ekki sú stöðugasta í leik sínum.

„Hún er mjög sérstök. Ég hef aldrei séð stelpu sem er jafn hæfileikarík og hún. Hún er fáránlega góð í fótbolta en maður veit aldrei hvar maður hefur hana,“ sagði Katrín í samtali við Vísi í gær.

„Á góðum degi er besti leikmaður í heimi en þegar hún á slæman dag er hún neikvæð og svolítið erfið. Það er stundum svolítið strembið að vera með henni í liði þar sem maður veit aldrei hvað maður fær frá henni,“ bætti Katrín við.

Sjá einnig: Áhrifamikla lesbían, sú heimilislausa og bankastarfsmaðurinn.

Líf Williams hefur ekki alltaf verið dans á rósum en hún var t.d. heimilislaus í sex ár, frá 17 ára aldri og þar til hún varð 23 ára. Á þessum tíma var Williams samt sem áður landsliðskona og fastamaður í sínu liði í efstu deild á Englandi.

Hún gat loks leigt sér íbúð eftir að hún samdi við Everton en hún lék með liðinu til 2012 þegar hún flutti sig um set til Liverpool.

Williams býr sig undir að taka vítaspyrnu gegn Kólumbíu. Hún skoraði úr spyrnunni.vísir/getty
Williams hefur tvívegis orðið enskur meistari með Liverpool og þá er hún leikjahæsta landsliðskona Englands frá upphafi með 145 landsleiki. Þeir eiga eflaust eftir að verða fleiri en Williams er aðeins 31 árs.

Sjá einnig: Dyke: Forverar mínir bönnuðu kvennafótbolta í 50 ár.

Katrín segir Williams hæfileikaríkasta leikmann sem hún hefur spilað með á ferlinum.

„Hún er leikstjórnandi, sterk og sér sendingar sem enginn annar sér,“ sagði Katrín.

„Hún er auðvitað í stóru hlutverki hjá enska landsliðinu en hæfileikarnir hennar njóta sín ekki alveg nógu vel vegna leikstíls liðsins. Hún fær boltann ekkert rosalega oft en þegar hún fær hann sér maður hversu góð hún er.

„Hún er hæfileikaríkasti leikmaður sem ég hef spilað með en það þarf oft meira en bara hæfileika til að ná langt.

„Fólk hérna úti segir að ef hún hefði lagt sig alla í þetta væri hún einn af 10 bestu leikmönnum heims,“ sagði Katrín að lokum.

Leikur Englands og Japan hefst klukkan 23:00.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×