Enski boltinn

Katrín nú ein af „Bellunum" | Samdi við nýliðana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Ómarsdóttir og Becky Easton fagna marki með Liverpool en þær eru báða komnar til Doncaster Rovers.
Katrín Ómarsdóttir og Becky Easton fagna marki með Liverpool en þær eru báða komnar til Doncaster Rovers. Vísir/Getty
Íslenska landsliðskonan Katrín Ómarsdóttir mun spila áfram í ensku úrvalsdeild kvenna í fótbolta en hún hefur samið við nýliða Doncaster Rovers.

Katrín vann tvo meistaratitla á þremur árum með Liverpool en fékk ekki nýjan samning hjá liðinu og hefur síðan verið að leita sér að nýju félagi.  

Samingurinn við Doncaster Rovers er staðfestur á heimasíðu félagsins en þar er einnig sagt frá því að nokkur lið höfðu áhuga á því að semja við Katrínu.

Doncaster Rovers vann sér sæti í ensku úrvalsdeildinni með því að ná öðru sæti í b-deildinni en liðið fer upp ásamt Reading. Það er mikill hugur í félaginu og liðið hefur verið að styrkja sig með öflugum leikmönnum að undanförnu.

Doncaster Rovers Belles Ladies Football Club gengur vanalega undir nafninu Doncaster Belles eða fegurðardísirnar frá Doncaster. Karín er því orðin ein af „Bellunum".

Katrín er ekki eini leikmaður Liverpool sem fer yfir til Doncaster Rovers því enska félagið samdi einnig við hina 41 árs gömlu Becky Easton, sem er fyrrum leikmaður Doncaster Rovers.

„Katrín kemur með gæði á miðju vallarins og með reynslu úr úrvalsdeildinni. Það mun skipta okkur miklu máli á komandi tímabili," sagði Glen Harris, þjálfari Doncaster Rovers, á heimasíðunni.

„Katrín hefur frábæra tækni og við horfum til þess að hún geti haft góða áhrif á leik liðsins. Það að semja við svona öflugan leikmann eins og Katrínu sýnir vel áhuga okkar á því að stimpla okkur inn í ensku úrvalsdeildina," sagði Harris.

Katrín Ómarsdóttir er 28 ára gömul og hefur spilað sem atvinnumaður frá árinu 2010 þegar hún yfirgaf KR og samdi við Kristianstad í Svíþjóð.

Katrín hefur spilað 64 landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim 10 mörk en hún hefur ekki spilað fyrir landsliðið síðan í maí 2014.


Tengdar fréttir

Katrín fer frá Liverpool

Varð tvívegis Englandsmeistari á þriggja ára dvöl sinni í Bítlaborginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×