Lífið

Katrín Jakobs valdi Beastie Boys

Þorbjörn Þórðarson skrifar
365/Jóhannes
Fjörug umræða skapaðist í nýjasta þætti hlaðvarpsins Hip Hop og Pólitík um hugsjónir í stjórnmálum og flokkun stjórnmálakenninga í hægri og vinstri í umræðu um stjórnmál 21. aldar. Gestir þáttarins voru þau Katrín Jakobsdóttir formaður VG og fyrrverandi menntamálaráðherra og Björgvin Guðmundsson almannatengill á Kom og fyrrverandi ritstjóri Viðskiptablaðsins.

Hægt er að hlusta á þáttinn með því að smella hér fyrir ofan eða hér. 

Margir telja að þýðing þessara hugtaka, vinstri og hægri, og hvaða skilning fólk leggur í þau hafi minnkað mikið á síðustu árum. Þannig sé baráttufólk fyrir félagslegu réttlæti (e. social justice) flokkað sem „vinstrimenn“ af sumum gömlum körlum í Sjálfstæðisflokknum þótt sumir einstaklingar sem aðhyllist slíkt réttlæti séu miklu beittari talsmenn einstaklingsfrelsis og frjálslyndis en þessir sömu karlar.

Einföldun á því hvernig við nálgumst pólitík

„Hægri og vinstri er mjög mikil einföldun á því hvernig við nálgumst pólitík. Margir hlustendur og við örugglega öll, hafa tekið Political Compass, sem mælir mann út frá frjálslyndi, íhaldssemi, hægri og vinstri. Svo eru aðrar breytur sem koma inn í. Græna pólitíkin sem mér finnst mikilvæg. Maður býr sér til sitt eigið hugmyndakerfi. Ég myndi ekki segja að þetta væru ónýt hugtök (innsk. hægri og vinstri ás) en þetta eru ekki einu hugtökin sem maður þarf til að skilgreina sig pólitískt,“ sagði Katrín Jakobsdóttir í þættinum. 



„Íhaldssemi og frjálslyndi eru gild hugtök og ég veit ekki hvar ég á að flokka til dæmis Pírata. Ég myndi flokka þá hægra megin við miðju en þeir vilja kannski ekki láta flokka sig á þessum gamaldags hægri-vinstri ás eins og kom fram í síðasta þætti af þessu hlaðvarpi,“ sagði Björgvin.

„Það er gott að setja upp frekar í gildum. Ég vil berjast fyrir jöfnuði sem stjórnmálamaður og ég vil berjast fyrir sjálfbærni. Þá þarf að taka þessi gömlu gildi og máta þau við hin nýju. Ég vil frekar horfa á markmiðin og hvernig við eigum að ná þeim,“ sagði Katrín.

Umræða skapaðist um menntakerfið og félagslegt réttlæti í þættinum. „Ef við skoðum stöðuna í bestu háskólunum í Bandaríkjunum þá sjáum við að þeim fer fjölgandi sem eru af efnuðu fólki komnir inni í háskólunum. Tomas Piketty veltir því fyrir sér og vitnar í rannsóknir en hann spyr, er búið að snúa af leið jafnra tækifæra? Það hefur breyst svo gríðarlega á síðustu tveimur áratugum, þessi mikla samþjöppun auðs. Það hefur áhrif á samfélagsgerðina. Jöfnuður getur verið markmið í sjálfu sér til þess að viðhalda góðu samfélagi fyrir alla,“ sagði Katrín. 

Capital in The Twenty First Century eftir Thomas Piketty er af mörgum talin ein mikilvægasta bók á sviði hagfræði sem hafi komið út í mörg ár.
Regluverk evrusvæðisins gallað

Þá var talsverð umræða um Evrópusambandið og bresti á evrusvæðinu vegna þeirrar stöðu sem er uppi í Grikklandi.

„Ég hef verið þeirrar skoðunar að við eigum ekki að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Við eigum ekki að horfa á ESB út frá því hvort það sé hentugt fyrir Ísland á einhverjum tímapunkti. Þetta er miklu meiri ákvörðun en það og snýst um það hvort við eigum að taka þátt í sambandinu eins og það er uppbyggt. Ég vil meina að Evrópusambandið hafi allt of oft reitt sig á lausnir frjálshyggjunnar eins og við sjáum í kröfum Evrópska Seðlabankans í viðbrögðum við krísunni. Sem birtist í vilja til að niðurskurðarhnífnum sé beitt,“ sagði Katrín.

Hún tók sem dæmi að ríkisstjórn Francois Hollande í Frakklandi hafi viljað fara „blandaða leið“ og beita niðurskurði og skattahækkunum, svipað og síðasta ríkisstjórn Samfylkingar og VG hafi gert eftir hrun hér á Íslandi, en það hafi verið mjög mikil óánægja með þetta hjá ESB. 

Þá nefndi Katrín kerfislæga bresti sem hafi komið í ljós í uppbyggingu myntsamstarfsins. „Ég held að í þessu máli þá er það rétt gagnrýni hjá Thomas Piketty að það sé ekki hægt að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil án þess að hafa sameiginlega hagstjórn. (...) Það er tekinn upp sameiginlegur gjaldmiðill (evra) án þess að fara alla leið,“ sagði Katrín. 

Þess má geta að Katrín skrifaði bókmenntagagagnrýni í Kjarnann í fyrra um bók Thomas Piketty, Capital in the Twenty-First Century. Lokaorð bókarinnar eru þessi í lauslegri þýðingu: 

„(A)llir borgarar ættu að kynna sér peninga, hvaða mælikvarðar eru nýttir á peninga, hvaða staðreyndir tengjast peningum og sögu peninga. Þeir sem eiga mikla peninga bregðast aldrei í því að verja hagsmuni sína. Að neita að eiga við tölur þjónar hins vegar sjaldnast hagsmunum hinna tekjuminni.“

Beastie Boys eru ein frægasta rapphljómsveit samtímans. Sveitin hefur verið starfandi í tæpa þrjá áratugi. Katrín Jakobsdóttir segir að lög með Beastie Boys hafi alltaf verið hápunkturinn í partíum hér áður fyrr þegar hún stundaði skemmtanalífið, áður en hún fór að eignast börn.
Beastie Boys var „hápunktur partísins“

Þau Björgvin og Katrín fengu að velja þá rapptónlistarmenn sem voru spilaðir í þættinum. Björgvin valdi N.W.A og þeirra frægasta lag, Straight Outta Compton sem er af samnefndri frumraun sveitarinnar frá 1988 en væntanleg er leikin kvikmynd um sveitina sem beðið hefur verið eftir með mikilli eftirvæntingu. Þá tengdi hann lagaval sitt saman og valdi smellinn Still Dre af plötunni 2001 með Dr. Dre. en hann var meðlimur í N.W.A.

Björgvin útskýrir í þættinum að hann hafi eiginlega enduruppgötvað Dr. Dre og Snoop Dogg sem listamenn fyrir nokkrum árum, eftir að hafa ekki hlustað mikið á tónlist um nokkurra ára skeið. Þess má geta að Dre er í dag efnaðasti rapptónlistarmaður sögunnar og milljarðamæringur í dollurum talið. Ekki síst vegna velgengni fyrirtækisins Beats by Dr. Dre sem framleiðir gríðarlega vinsæl heyrnartól undir sama nafni.

Katrín Jakobsdóttir valdi Beastie Boys. „Þetta eru ríkar minningar frá þeim tíma þegar ég var ennþá að stunda partí og skemmta mér fyrir mörgum árum síðan, áður en ég fór að eignast börn. Þetta var alltaf hápunktur partísins,“ sagði Katrín en hún nefndi einnig hinn hápólitíska rappara Immortal Technique, réttu nafni Felipe Andres Coronel. Katrín sagðist njóta góðs af því að eiginmaður hennar væri vel að sér í rapptónlist og sagðist hafa kynnst Immortal Technique gegnum hann. 

Hip Hip og Pólitík er vikulegt hlaðvarp á Vísi.
Hip Hip og Pólitík er vikulegt hlaðvarp (e. podcast) sem birtist á Vísi. Þátturinn er yfirleitt tekinn upp á mánudagsmorgnum og birtist samdægurs. Unnið er að því að koma þættinum í helstu hlaðvarps smáforrit eins og Podcasts fyrir iPhone. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×