Lífið

Katrín Jakobs gleymdi fartölvu í strætó

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Katrín segir frá atvikinu á Facebook-síðu sinni.
Katrín segir frá atvikinu á Facebook-síðu sinni.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, gleymdi fartölvu í strætó í morgun. Hún ákvað að taka strætó í slæma veðrinu, til þess að valda ekki samgöngutruflunum og segir á Facebook-síðu sinni að fartölvan hafi gleymst eftir ítarlegar samræður við yngsta soninn sem var með í för.

„Er meðvitaður borgari og tók strætó í morgun til að valda ekki samgöngutruflunum (eins og mig minnir að það hafi verið orðað). Yngsti sonurinn skemmti sér svo vel í vagninum og spurði svo margra spurninga að þegar við fórum frá borði gleymdi ég tölvunni minni (ok þetta var ekki honum að kenna, er stöðugt að leggja frá mér hluti hér og þar)," skrifar Katrín á Facebook síðu sína. Við tók atburðarás sem einhverjir hefðu eflaust vilja sjá:

„Í ráðaleysi byrjaði ég að hlaupa á eftir vagninum með þriggja ára barn í eftirdragi sem var nú ekki vænlegt til árangurs en kveikti svo á perunni og hringdi í Strætó. Með hjálp velviljaðs samborgara komst ég upp á Hlemm á skömmum tíma, endurheimti tölvuna sem hafði fundist í vagninum og skemmti syni mínum sem vill núna byrja alla morgna með þessum hætti"“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×