Fótbolti

Katrín á toppnum í fötuáskorun UEFA á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Ásbjörnsdóttir í leiknum á móti Sviss.
Katrín Ásbjörnsdóttir í leiknum á móti Sviss. Vísir/Getty
Landsliðskonurnar Katrín Ásbjörnsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir voru fulltrúar íslenska landsliðsins í „Bucket challenge" UEFA meðal liðanna sextán sem taka þátt í EM kvenna í fótbolta í Hollandi.

Hver þátttökuþjóð tilnefndi tvo leikmenn sem fengu það verkefni að hitta í fötu með litlum boltum af frekar stuttu færi. Hvor leikmaður fékk fimm tilraunir en þær framkvæmdu þetta á sokkalestunum.

Katrín vann Ingibjörgu í fingraleiknum „steinn, skæri, blað“ og fékk því að reyna fyrir sér á undan. Katrún gat því sett smá pressu á Grindvíkinginn.

Það má sjá myndband frá UEFA af íslensku stelpunum að reyna fyrir sér hér fyrir neðan:



 

Katrín byrjaði vel með því að skella fyrsta boltanum í körfuna og setti síðan annan til viðbótar á réttan stað.

Ingibjörg klikkað á fjórum fyrstu skotunum sínum en setti þann síðasta í körfuna og fagnaði vel.

Með því að fá tvö stig í keppninni þá komst Katrín Ásbjörnsdóttir í efsta sætið í fötuáskorun UEFA en hún er ein af sex sem höfðu hitt tveimur boltum í körfuna þegar myndbandið með íslensku stelpunum var tekið upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×