Innlent

Katrín: Varðaði almannahagsmuni að birta skýrsluna strax

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna. vísir/anton
„Ég get nú ekki sagt til um það hvort að þessi skýrsla hefði endilega áhrif á kosningaúrslit,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna. „Það get ég ekki sagt til um en auðvitað er það hagsmunir almennings að gögn sem þessi, sem varða almannahagsmuni, séu birt um leið og þau liggja fyrir. Það finnst mér að eigi að vera hin eðlilega regla.“

Katrín hefur óskað eftir fundi hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til að fjalla um efni skýrslunnar sem varðar eignir Íslendinga í skattaskjólum. Hún vill að fundurinn verði opinn fjölmiðlum en Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og formaður nefndarinnar, hefur ekki svarað beiðni Katrínar. Ekki náðist í Benedikt við vinnslu fréttarinnar en hann hefur undanfarna daga verið önnum kafinn í stjórnarmyndunarviðræðum.

„Mér finnst í fyrsta lagi mikilvægt að Alþingi taki svona skýrslu til umfjöllunar,“ segir Katrín. „Þessi skýrsla er auðvitað gerð í kjölfar umræðunnar um Panamaskjölin í vor. Þá lögðum við í þingflokki Vinstri Grænna til að það yrði skipuð rannsóknarnefnd til þess að fara yfir umfang aflandsfélaga og þátttöku íslendinga í slíkum félögum. Ríkisstjórnin ákvað að gera þessa skýrslu og við þurfum auðvitað að fara yfir efni hennar og hvað sé hægt að gera í framhaldinu. Hvað er hægt að gera til að bæta framkvæmdina og hvað er hægt að gera til að bæta löggjöfina og hvernig við viljum sjá þessi mál þróast á næstu árum?“ segir hún.


Tengdar fréttir

Bjarni segir að svör sín hafi verið ónákvæm

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að svör sín um hvenær ráðuneyti sínu hefði borist skýrsla um eignir Íslendinga á aflandssvæðum hafi verið ónákvæm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×