Viðskipti erlent

Katla of íslensk fyrir olíulind en ekki Krafla

Norska olíufélagið Statoil hefur hætt við að nota heitið Katla um olíulind í Noregshafi, vegna tilmæla frá norsku málnefndinni, sem þótti óæskilegt að nota nafn sem tengdist Íslandi. Statoil virðist hins vegar ekki alveg afhuga því að nota íslensk nöfn því nú hefur önnur olíulind skammt frá fengið heitið Krafla.

Venjan er gefa nýjum olíuvinnslusvæðum sérstakt nafn og ákvað Statoil fyrir tveimur árum að velja nafnið Katla á olíulind sem fannst um 140 kílómetra vestur af Bergen. Norska málnefndin greip hins vegar nýlega inn í málið og sendi Olíustofnun Noregs bréf í vor þar sem mælst var til þess að Kötlusvæðinu yrði gefið nýtt nafn.

Í bréfi norsku málnefndarinnar sagði að óæskilegt væri og geti skapað vanda að velja nafn sem hefði beina tengingu við Ísland. Það er þó ekki útskýrt hversvegna. Statoil hefur nú brugðist við tilmælunum og hætt við að nota heitið Katla en gefið svæðinu í staðinn heitið Stjerne eða Stjarna.

Nú hefur Statoil fundið hins vegar nýja olíulind skammt frá og gefið henni heitið Krafla. Ekki hafa borist fregnir af því hvort norska málnefndin ætli sér að skrifa nýtt bréf vegna Kröflunafnsins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×