Erlent

Katalónar munu ekki fylgja skipunum frá Madríd

Atli Ísleifsson skrifar
Fjölmenn mótmæli hafa verið í Barcelona síðustu daga.
Fjölmenn mótmæli hafa verið í Barcelona síðustu daga. Vísir/AFP
Katalónsk yfirvöld munu ekki fylgja skipunum frá spænskum stjórnvöldum grípi Spánarstjórn til þess ráðs að taka afturkalla sjálfsstjórn héraðsins. Þetta segir Raul Romeva, talsmaður katalónsku heimastjórnarinnar í utanríkismálum, í samtali við BBC.

Romeva segir aðgerðir stjórnvalda á Spáni ganga gegn vilja Katalóna.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hefur þegar kynnt áætlun spænskra stjórnvalda um að afturkalla sjálfstjórn Katalóna.

Héraðsþing Katalóníu kemur saman á fimmtudag til að ræða hver viðbrögð þess verða. Reiknað er með að öldungadeild Spánarþings samþykki aðgerðir Spánarstjórnar á föstudag, auk tillögu um að boðað verði til nýrra kosninga til héraðsþingsins.

Mikil spenna hefur verið uppi í samskiptum Spánarstjórnar og héraðsstjórnar Katalóníu, allt frá því að tilkynnt var um að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram í héraðinu um hvort það skyldi lýsa yfir sjálfstæði eður ei. Kosningarnar fóru fram í byrjun mánaðar þrátt fyrir að lögbann hafi verið lagt á þær. Var niðurstaðan sú að rúmlega 90 prósent þeirra sem mættu á kjörstað voru fylgjandi sjálfstæði.

Þátttakan var 43 prósent, en sambandssinnar, sem hlutu um fjörutíu prósent atkvæða í héraðsþingskosningunum 2015, sniðgengu þjóðaratkvæðagreiðsluna.


Tengdar fréttir

Halda áfram þrátt fyrir hótun stjórnarinnar um fangelsisvist

Stjórnvöld í Madríd á Spáni ætla að afturkalla sjálfstjórn Katalóníu. Katalónar stefna ótrauðir áfram að því að lýsa yfir sjálfstæði. Utanríkisráðherra landsins segir héraðsstjórnina vera að gera tilraun til byltingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×