Handbolti

Kastaði boltanum að áhorfendum: Var óviljaverk

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnar Birkir í leik með Fram gegn Selfossi í haust.
Arnar Birkir í leik með Fram gegn Selfossi í haust. Vísir/Ernir
Arnar Birkir Hálfdánsson, leikmaður Fram, kastaði boltanum að áhorfendum í stúku í lok leiks liðsins gegn Akureyri í Olísdeild karla um helgina.

Fram vann leikinn með minnsta mun, 29-28, en Akureyringar fengu tækifæri til að jafna leikinn á lokasekúndunum. Gestirnir köstuðu boltanum fram en Arnar Birkir greip boltann og grýtti honum frá sér, þar sem að hann hélt að leiktíminn hefði verið liðinn.

„Ég hélt að leikurinn væri búinn og var bara að fagna,“ sagði Arnar Birkir en hið rétta er að leikurinn hafði verið stöðvaður eftir að Akureyri bað um leikhlé.

Boltinn fór þó ekki í neinn áhorfenda en það mátti þó litlu muna, eins og sjá má í frétt Rúv.

„Ég heyrði flaut og var bara að fagna sigrinum. Ég var ekki að bregðast við neinu frá áhorfendum eða neitt slíkt. Boltinn fór bara á vondan stað,“ sagði Arnar Birkir í samtali við Vísi í dag en hann fékk að líta rauða spjaldið vegna þessa.

Áhorfendur brugðust illa við atvikinu en Arnar Birkir kippti sér ekki upp við það. „Mér var svo sem alveg sama um það. En þetta var klárt rautt spjald og mun ég ekki þræta fyrir það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×