Handbolti

Karólína aftur heim í Gróttu eins og Anna Úrsúla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karólína Bæhrenz.
Karólína Bæhrenz. Mynd/Handknattleiksdeild Gróttu
Karólína Bæhrenz er komin aftur heim í handboltanum en hún skrifaði undir samning við Handknattleiksdeild Gróttu og mun spila með liðinu í Olísdeild kvenna í vetur. Þetta kemur fram í Fréttatilkynningu frá Gróttu.

Karólína er uppalin í Gróttu en hefur spilað með Val undanfarin fimm tímabil og varð Íslandsmeistari í fjórða sinn með Hlíðarendaliðinu í vor auk þess að vinna þrjá bikarmeistaratitla.

„Karólína ólst upp í yngri flokka starfi Gróttu og það hefur verið gaman að fylgjast með vexti hennar undanfarin ár sem leikmaður í Val. Það eru miklar gleðifréttir að fá hana aftur til okkar í Gróttu. Hún kemur klárlega til með að styrkja hópinn mikið," segir Kári Garðarsson þjálfari Gróttuliðsins, í Fréttatilkynningu frá Gróttu í kvöld.

Karólína Bæhrenz er annar leikmaður Íslandsmeistara Vals sem snýr aftur heim í Gróttu en áður hafði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir samið við sitt uppeldisfélag. Þetta voru lykilmenn hjá Val sem vann tvöfalt síðasta vetur.

„Stjórn Handknattleiksdeildar Gróttu er virkilega ánægð með að ná samkomulagi við Karólínu. Mikill metnaður er innan félagsins og er markmiðið að ná lengra en í fyrra þegar liðið endaði í 5.sæti deildarinnar, komst í undanúrslit Íslandsmótsins og undanúrslit bikarkeppninnar. Síðast en ekki síst komst liðið í úrslitaleik deildarbikarsins. Með komu Karólínu og þeirra leikmanna sem snúa til baka eftir meiðsli og barnsburð teljum við okkur geta haldið áfram í þeirri toppbaráttu sem liðið var í seinasta vetur," segir í Fréttatilkynningunni frá Gróttu.

Karólína Bæhrenz og Kári Garðarsson þjálfari Gróttuliðsins.Mynd/Handknattleiksdeild Gróttu

Tengdar fréttir

Er ekkert að pæla í handboltanum

"Ég er bara að skoða mín mál, það er ekkert ákveðið. Ég er búin að standa í flutningum undanfarnar vikur og ég hef ekkert pælt í handboltanum,“ sagði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, leikmaður Vals, þegar Vísir heyrði í henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×