Gagnrýni

Karlmenn með brotna sjálfsmynd

Atli Sigurjónsson skrifar
Myndin segir frá feðgum sem eru enn að kljást við sjálfsmorð eiginkonu og móður.
Myndin segir frá feðgum sem eru enn að kljást við sjálfsmorð eiginkonu og móður.
Louder Than Bombs

Leikstjóri: Joachim Trier

Handrit: Joachim Trier og Eskil Vogt

Aðalleikarar: Jesse Eisenberg, Gabriel Byrne, Isabelle Huppert og Devin Druid.



Louder Than Bombs er fyrsta myndin sem norski leikstjórinn Joachim Trier gerir á ensku en hann er líklega þekktastur fyrir mynd sína Ósló, 31. ágúst.

Myndin segir frá feðgum sem eru ennþá að kljást við sjálfsmorð móðurinnar (Isabelle Huppert) þótt nokkur ár séu liðin. Faðirinn (Gabriel Byrne) og yngsti sonurinn (Devin Druid) búa einir saman en eldri sonurinn (Jesse Eisenberg) var að eignast barn og starfar sem háskólaprófessor. Hann kemur í heimsókn til föðurins í tilefni sýningar á myndum móðurinnar en hún starfaði sem ljósmyndari. Leyndarmál koma upp á yfirborðið og feðgarnir þurfa að horfast í augu við sannleikann og hvor annan.

Líkt og í fyrri myndum Triers er áherslan hér á persónusköpun og ákveðna stemningu frekar en sterkan söguþráð. Sagan í myndinni snýst ekki um hver leyndarmálin eru, enda eru þau flest ljós snemma, heldur hvernig persónurnar kljást við þessi leyndarmál og hvernig þær bregðast hver við annarri.

Þetta er vissulega mjög alvarleg mynd, með sjálfsmorð í þungamiðjunni, en Trier og samstarfsfólki hans tekst að takast á við þetta efni án þess að myndin verði of þung. Það er bæði smá húmor í myndinni til að brjóta upp alvöruna en það er þó helst hvernig upplýsingum er miðlað sem sem skapar stemninguna. Myndin verður aldrei of dramatísk, fólk er ekki öskrandi eða grátandi að óþörfu og lítið er um væmni. Trier dæmir heldur ekki persónur sína og leyfir þeim öllum að vera jafn miklir gallagripir.

Það má segja að Trier hafi tekist að gera ameríska vellu á evrópskan (eða jafnvel bara skandinavískan) hátt, það á líka einhvern þátt að foreldrarnir eru leiknir af Íra og Frakka (persóna hennar er frönsk en allt bendir til að hann sé Kani þótt írski hreimurinn hans Byrnes læðist inn stöku sinnum). Hér tekst líka nokkuð vel að forðast klisjur og það er sjaldan farið augljósustu leiðina að hlutunum.

Brotakenndur stíll myndarinnar gefur henni líka ákveðna sérstöðu og myndinni tekst einhvern veginn að vera í senn bókmenntaleg og kvikmyndaleg. Til dæmis er í fleiri en einni senu myndfléttu blandað skemmtilega saman við persónur að lesa upp texta af blaði og mynda textinn og myndefnið oft í senn áhugaverðar hliðstæður sem og andstæður. Þessi stíll passar líka vel við viðfangsefnið enda er hér verið að takast á við menn með brotakennda sjálfsmynd.

Louder Than Bombs verður pínku langdregin á köflum og tekst ekki algjörlega að forðast klisjur, það vantar aðeins upp á að myndin nái fullu húsi. En þetta er samt í heildina afar vönduð og áhrifamikil mynd og vel þess virði að sjá.

Niðurstaða: Sterk og vönduð mynd sem tekur á kunnuglegum og dramatískum efnum án þess að verða of klisjukennd eða dramatísk. Vel leikin og skemmtilega tekin og klippt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×