Innlent

Karlmaður réðst á sambýliskonu sína

Heimir Már Pétursson skrifar
Verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru af ýmsum toga aðfaranótt aðfangadags.
Verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru af ýmsum toga aðfaranótt aðfangadags. Vísir/Valli
Fertugur karlmaður var handtekinn í heimahúsi eftir að hafa ráðist á sambýliskonu sína í austurborginni um klukkan hálf tólf í gærkvöldi og vistaður í fangageymslu. Maðurinn var verulega ölvaður að sögn lögreglu. Konan var flutt með sjúkrabifreið á slysadeild en ekki er vitað nánar um meiðsl hennar.

Erlendir ferðamenn á nokkrum bílaleigubílum hugðust skoða norðurljósin urðu strandaglópar á Þingvallavegi við Sjkálafellsafleggjarann seint í gærkvöldi. Ferðamennirnir lögðu öllum bílunum á snjóbreiðu við veginn. Ekki vildi betur til en svo að bílarnir festust flestir. Þurfti fólkið að vera þarna í nokkurn tíma eða þangað til bílaleigan sem þau höfðu verslað við kom með dráttarbíl og bjargaði málunum.

Upp úr klukkan fjögur í nótt var kveikt í dagblöðum í stigahúsi við Blikahóla. Íbúar höfðu slökkt eldinn sjálfir þegar lögregla kom á staðinn. Ekki er vitað um skemmdir eða hverjir voru þarna að verki.

Um klukkan eitt í nótt veittu lögreglumenn á eftirlitsferð athygli bifreið sem ekið var gegn rauðu ljósi á Reykjanesbraut. Í bifreiðinni voru fjögur ungmenni þar af þrjú undir 18 ára aldri. Kannabislykt fannst í bílnum og viðurkenndi einn farþeginn að eiga efnin. Lögregla sendi tilkynning til barnaverndar vegna málsins. Ökumaðurinn var ekki undir áhrifum fíkniefna.

Þá var karlmaður tekinn úr umferð eftir að hafa ekið bifreið á Suðurgötu undir áhrifum kannabis að sögn lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×