Handbolti

Karl hættur hjá kvennaliði Gróttu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Garðarsson þarf nú að finna sér nýjan aðstoðarþjálfara.
Kári Garðarsson þarf nú að finna sér nýjan aðstoðarþjálfara. Vísir/Ernir
Karl Erlingsson verður ekki áfram aðstoðarþjálfari Íslandsmeistara Gróttu í kvennahandboltanum en þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Handknattleiksdeild Gróttu.

Karl Erlingsson fór mikinn á samfélagsmiðlum eftir tap Gróttu á móti Haukum í Olís-deild kvenna um helgina þar sem hann gagnrýndi dómara og eftirlitsdómara.

Karl er aðstoðarmaður Kára Garðarssonar en hann tók við stöðu Guðmundar Árna Sigfússonar fyrir tímabilið en Guðmundur Árni hjálpaði Gróttu að vinna Íslandsmeistaratitilinn undanfarin tvö ár.

Karl var afar óánægður með bæði störf dómara leiksins í Haukaleiknum, þeirra Matthíasar Leifssonar og Arnar Arnarsonar, sem og eftirlitsdómarans Kristjáns Halldórssonar. Hann líkti dómgæslunni í leiknum við lélegan brandara og Karl kallaði dómara „hálf vangefið lið" og „fábjána."

Karl eyddi skrifum sínum skömmu eftir að þau voru birt en mbl.is birti þau síðan á vef sínum. Handknattleiksdeild Gróttu baðst í framhaldinu afsökunar á skrifum Karls og ummælum hans hefur einnig verið vísað til aganefndar HSÍ.

Í framhaldi af þessu máli hafa nú Karl Erlingsson og stjórn handknattleiksdeildarinnar komist að samkomulagi um að Karl láti af störfum fyrir félagið nú þegar.



Yfirlýsing frá Handknattleiksdeild Gróttu og Karli Erlingssyni

Stjórn handknattleiksdeildar Gróttu og Karl Erlingsson, aðstoðarþjálfari kvennaliðs félagsins, harma þau ummæli sem Karl lét frá sér fara eftir leik Gróttu og Hauka um liðna helgi.

Í framhaldi af þessu hafa Karl og stjórn handknattleiksdeildarinnar  komist að samkomulagi um að Karl láti af störfum fyrir félagið nú þegar.

Bjarni Torfi Álfþórsson, formaður handknattleiksdeildar Gróttu & Karl Erlingsson


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×