Innlent

Karl Garðars: Síðasta ríkisstjórn gekk of langt í niðurskurði

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Vísir/Vilhelm
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokks, segir síðustu ríkisstjórn hafa gengið allt of langt í niðurskurði. Hún hafi nagað heilbrigðiskerfið inn að beini og að það hafi verið í rúst þegar ný ríkisstjórn tók við árið 2013.

„Þessum flokkum var vissulega ákveðin vorkunn. Það varð jú hrun og mikill niðurskurður var nauðsynlegur. Höfum samt eitt á hreinu. Á niðurskurðartímum verður að forgangsraða. Það er aldrei mikilvægara en á slíkum stundum. Það var gengið allt of langt í niðurskurði í heilbrigðismálum á síðasta kjörtímabili,” sagði Karl í ræðu sinni á eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld.

Karl sagði að hugsanlega hafi niðurskurður verið nauðsynlegur, en að ekki hafi verið nauðsynlegt að byrja á þeim sem höfðu það lakast í þjóðfélaginu – eldri borgarum. „Það var ekki fallegt. Það var ekki sanngjarnt,” sagði hann.  

Þá sagði Karl að breytinga sé þörf á fjármálakerfinu. Framsóknarflokkurinn hafi til að mynda talað fyrir samfélagsbanka og að þá þurfi að fara varlega í sölu banka. Jafnframt þurfi að taka á bónusgreiðslum fjármálastofnana, enda sé aldrei hægt að réttlæta þær greiðslur.

„Flokksþing Framsóknarflokksins hefur samþykkt ályktun mína bann við þeim – því miður hefur það ekki orðið að veruleika í því stjórnarsamstarfi sem við erum í.”

Fylgjast má með eldhúsdagsumræðum hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×