Körfubolti

Karl-Anthony Towns nýliði ársins í NBA

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Karl-Anthony Towns er einn sá allra efnilegasti í dag.
Karl-Anthony Towns er einn sá allra efnilegasti í dag. vísir/getty
Karl-Anthony Towns, miðherji Minnesota Timberwolves, var í dag útnefndur nýliði ársins í NBA-deildinni í körfubolta en líkt og Stephen Curry í valinu á leikmanni ársins fékk Town einróma kosningu.

Allir 130 fréttamennirnir og sérfræðingarnir sem hafa atkvæðisrétt settu Towns í fyrsta sætið á undan Lettanum Kristaps Porzingis hjá New York Knicks. Hann var annar með yfirburðum, fékk 117 atkvæði í annað sætið.

Aðrir voru ekki einu sinni líklegir en Nikola Jokic hjá Denver Nuggets var í þriðja sæti í kosningunni. Hann fékk sjö atkvæði í annað sætið en 38 í þriðja sætið og endaði þar.

Karl-Anthony Towns er annar leikmaður Minnesota í röð sem hlýtur þessa nafnbót en í fyrra var Kanadamaðurinn Andrew Wiggins kosinn nýliði ársins. Timberwolves er með ungt og gríðarlega spennandi lið sem verður áhugavert að fylgjast með á næstu árum.

Towns var valinn númer eitt í nýliðavalinu í fyrra en hann spilaði með Kentucky-háskólanum sem tapaði ekki leik í háskólaboltanum á síðustu leiktíð fyrr en í undanúrslitum úrslitakeppninnar.

Þessi tvítugi miðherji skilaði 18,3 stigum að meðaltali í leik auk þess sem hann tók 10,5 fráköst og gaf tvær stoðsendindingar. Þá varði hann 1,7 skot að meðaltali í leik og skaut 81,1 prósent af vítalínunni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×