Lífið

Karitas hitti Boga í kvöld: „Hún var með stjörnur í augunum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Karitas og Bogi saman í settinu á RÚV í kvöld.
Karitas og Bogi saman í settinu á RÚV í kvöld. mynd/þórður
Karitas Lóa Þórðardóttir, sex ára stúlka sem er mikill aðdáandi Boga Ágústssonar fréttaþular á RÚV, fékk loksins að hitta átrúnaðargoðið sitt í kvöld þegar Bogi bauð henni og foreldrum hennar að koma og fylgjast með fréttaútsendingu á meðan hann las kvöldfréttir í sjónvarpinu.

Sex ára afmælisveisla Karitasar Lóu fyrr í mánuðinum vakti mikla athygli, og var meðal annars greint frá henni hér á Vísi, en í veislunni var Boga-þema með sérstakri Boga-afmælisköku. Í kjölfarið á veislunni bauð Bogi Karitas að koma í heimsókn upp á RÚV.

„Þetta var bara frábært. Bogi er ótrúlega almennilegur og góður. Hann fór með Karitas í svaka sýningarferð um húsið, sýndi okkur fréttastofuna þar sem fréttirnar eru skrifaðar, fór með okkur niður í settið og í búningadeildina og svo fengum við að fylgjast með öllu ferlinu fyrir útsendingu, þegar hann var sminkaður og var að lesa yfir fréttir kvöldsins. Í lokin sátum við síðan í gegnum allan fréttatímann og fengum að fylgjast með honum í beinni,“ segir Þórður Hermannsson faðir Karitas í samtali við Vísi.

Hann segir að Karitas hafi fundist þetta mjög spennandi og áhugavert.

„Maður sá það alveg á henni og hún var með stjörnur í augunum.“

Í samtali við Vísi eftir afmæli hennar sagði Þórður að Karitas væri ófeimin en hún yrði kannski dálítið feimin ef og þegar hún myndi hitta Boga. Blaðamanni leikur því forvitni á að vita hvernig þetta hafi verið í kvöld.

„Þetta var svo rosalega mikil spenna að hún var róleg, kannski svolítið smeyk í fyrstu en svo var hún mjög „social“ og hún og Bogi spjölluðu saman,“ segir Þórður.

„Ég held að hún vilji bara núna verða fréttakona. Það voru RÚV-plaköt þarna á veggjum með Boga og öðrum fréttamönnum og hún skildi ekki alveg af hverju hún mátti ekki fá eitt plakat með sér heim til að hengja upp í herberginu sínu.“

Þórður segir að þetta hafi alveg gert vikuna fyrir dóttur hans og hún og foreldrarnir séu himinlifandi með þessa skemmtilegu heimsókn.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×