Fótbolti

Kári þurfti að yfirgefa England vegna aldurs: "Gaman að troða því“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Það er varla á neinn hallað þegar fullyrt er að miðvarðapar íslenska landsliðsins; Ragnar Sigurðsson og Kári Árnason, hafa spilað manna best fyrir Ísland á EM. Miðað við fréttir frá Englandi virðist Ragnar vera á leið þangað að spila og uppfylla æskudrauminn.

Kári, aftur á móti, þurfti að yfirgefa England síðasta sumar því hann þótti of gamall, 32 ára. Á mánudagskvöldið í Nice tók þessi "of gamli" miðvörður fyrir enska boltann ofurstjörnur úrvalsdeildarinnar og pakkaði þeim saman.

„Já, það var extra gaman. Það var svolítið þannig. Það var litið á þetta þannig að ég væri of gamall og komst ekkert innan Englands. Það er bara gaman að troða því,“ segir Kári.

Kári, sem samdi við Malmö í Svíþjóð síðasta sumar, vildi aldrei yfirgefa England. Honum finnst þessi aldursdýrkun þvæla og er tilbúinn að spreyta sig aftur í vöggu fótboltans.

„Auðvitað. Ég hef alltaf sagt að það er lang skemmtilegast að spila á Englandi. Það er lang mest heillandi af öllum löndum þannig ef það býðst aftur myndi ég stökkva á það,“ segir Kári.

Íslenska liðið var umkringt fjölmiðlamönnum á æfingasvæði liðsins í dag enda áhuginn á liðinu meiri en nokkru sinn fyrr. Kári segir liðið halda sér á jörðinni þrátt fyrir allt fjölmiðlafárið.

„Þetta er svolítið annað en þegar við komum hingað fyrst. Það er aðeins fleira fólk og áhuginn meiri. Við höfum spilað vel þannig þetta er skiljanlegt en þetta er ekkert að stíga mönnum til höfuðs,“ segir Kári Árnason.

Alla fréttina má sjá í spilaranum hér að ofan.

kki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×