Handbolti

Kári lætur staðar numið eftir tímabilið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kári hefur gert Gróttu tvisvar sinnum að Íslandsmeisturum.
Kári hefur gert Gróttu tvisvar sinnum að Íslandsmeisturum. vísir/ernir
Kári Garðarsson lætur af störfum sem þjálfari kvennaliðs Gróttu í handbolta eftir tímabilið.

Þetta staðfesti Kári í samtali við Fimmeinn.is.

Kári hefur náð frábærum árangri með Gróttu á undanförnum árum. Tímabilið 2014-15 varð Grótta Íslands-, bikar- og deildarmeistari. Það voru fyrstu stóru titlarnir í sögu félagsins.

Í fyrra vörðu Seltirningar svo Íslandsmeistaratitilinn eftir 3-1 sigur á Stjörnunni í úrslitum. Grótta komst einnig í úrslit bikarkeppninnar þar sem liðið tapaði fyrir Stjörnunni.

Það hefur ekki gengið jafn vel hjá Gróttu í vetur en liðið er í 6. sæti Olís-deildarinnar og féll úr leik fyrir Selfossi í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar.

Ekki liggur fyrir hver tekur við starfi Kára en hann mun koma að því að velja eftirmann sinn sem íþróttastjóri Gróttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×