Handbolti

Kári Kristján: Óli nær vonandi að kreista meira úr mér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kári með Ingibjörgu Ragnarsdóttur, nuddara landsliðsins, til margra ára.
Kári með Ingibjörgu Ragnarsdóttur, nuddara landsliðsins, til margra ára. fréttablaðið/daníel
Kári Kristján Kristjánsson, línumaðurinn öflugi, gerði í gær eins árs samning við Val og mun því spila með liðinu í Olísdeild karla næsta vetur. Hann snýr nú aftur heim úr atvinnumennsku í Þýskalandi og Danmörku en þar áður lék hann með Haukum og uppeldisfélaginu ÍBV.

Í fyrstu stóð til að hann myndi snúa aftur til Eyjamanna en eins og ítarlega var fjallað um á sínum tíma fóru viðræður þeirra út í veður og vind. Kári Kristján segist því afar sáttur við þessi málalok.

„Leiðir okkar Valsmanna lágu saman eftir allt sem á undan gekk og var ákveðið að við myndum taka okkur nægan tíma til að ræða hlutina. Lendingin var að lokum afar farsæl,“ sagði Kári í samtali við Fréttablaðið í gærkvöldi.

Hann segist spenntur fyrir því að starfa með Ólafi Stefánssyni, fyrrverandi félaga sínum í íslenska landsliðinu. „Það var mjög stór hluti af ákvörðun minni – að spila undir hans stjórn. Hann kemur með nýjar víddir í þjálfun og nú er að sjá hvort að honum takist að kreista enn meira úr mér en ég hef áður sýnt. Þess utan er Valsliðið ungt og spennandi. Ég á því von á afar spennandi vetri með Val,“ segir Kári Kristján.


Tengdar fréttir

Sár og svekktur út í ÍBV

„Þetta er súrsæt stund í lífinu hjá mér. Að fá þessi góðu tíðindi með heilsuna og vera svo stunginn í bakið af uppeldisfélaginu. Það er grátlegt,“ segir Kári Kristján Kristjánsson handboltamaður en hann veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér.

Greindist aftur með æxli í bakinu

Línumaðurinn Kári Kristján Kristjánsson varð fyrir gríðarlegu áfalli á dögunum þegar í ljós kom að stórt æxli hefur aftur greinst í baki línumannsins sterka.

Engan veginn mín upplifun á málinu

Kári Kristján Kristjánsson segist ekki vera sammála því sem fram kemur í yfirlýsingu handknattleiksdeildar ÍBV vegna orða hans í Fréttablaðinu á mánudag. Hann hefur nú lagt málið til hliðar og horfir til framtíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×