Fótbolti

Kári getur verið með gegn Finnlandi og Tyrklandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kári Árnason í leiknum gegn Úkraínu.
Kári Árnason í leiknum gegn Úkraínu. vísir/epa
Kári Árnason, landsliðsmiðvörður Íslands í fótbolta, er orðinn heill af meiðslum sínum og getur spilað með landsliðinu leikina gegn Finnlandi og Tyrklandi í undankeppni HM 2018 í næstu viku.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag þar sem Kári segist vera orðinn klár í slaginn eftir að fá tak í nárann. Hann hélt fyrst um tognun hefði verið að ræða en þetta var aðeins krampi.

„Ég er orðinn leikfær á ný sem er ánægjulegt,“ segir Kári við Morgunblaðið í dag en hann snýr aftur á völlinn með liði sínu Malmö um helgina. Malmö er á toppnum í sænsku úrvalsdeildinni með eins stigs forskot þegar fimm umferðir eru eftir.

Íslenska landsliðið mætir Finnlandi á fimmtudaginn í næstu viku og Tyrkjum annan sunnudag en hópurinn fyrir leikina verður opinberaður í hádeginu í dag.

Strákarnir okkar eru með eitt stig í riðlinum líkt og öll hin liðin eftir 1-1 jafntefli við Úkraínu ytra í fyrsta leik liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×