Handbolti

Kári: Getum alveg unnið titilinn aftur í Mýrinni

Ingvi Þór Sæmundsson í Hertz-höllinni skrifar
Kári þarf að brýna sitt lið fyrir sunnudaginn.
Kári þarf að brýna sitt lið fyrir sunnudaginn. vísir/anton
Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, var ekki sáttur með sóknarleik síns liðs í tapinu fyrir Stjörnunni í kvöld.

„Við vorum í veseni í sóknarleiknum allan seinni hálfleikinn, gerum ótrúlega mikið af einföldum mistökum og missum boltann frá okkur,“ sagði Kári en Grótta tapaði boltanum 11 sinnum á síðustu 21 mínútu seinni hálfleiks.

„Þær refsuðu okkur mikið með hraðaupphlaupum í dag sem var ansi dýrkeypt.“

Grótta gat tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri í kvöld og farið þar með taplaust í gegnum úrslitakeppnina. En fannst Kára spennustig leikmanna Gróttu of hátt í leiknum í kvöld?

„Ég veit það ekki. Ég tek ekkert af Stjörnunni, þær voru grimmar og grimmari en við á ýmsum sviðum. Við spiluðum sterkan varnarleik og fengum fullt af hraðaupphlaupum í fyrstu tveimur leikjunum en ekki í dag.

„Svo var þéttleikinn í vörninni ekki til staðar, við brutum ekki nógu vel á þeim,“ sagði Kári.

Þrátt fyrir tapið í dag fær Grótta tvo möguleika í viðbót til að tryggja sér titilinn sem liðið vann í fyrra.

„Það eru ýmsir þættir sem við þurfum að fínpússa fyrir sunnudaginn. Nú er ekkert annað að gera en að þétta raðirnar, nýta kvöldið til undirbúnings og svo er æfing á morgun. Við unnum titilinn í Mýrinni í fyrra og við getum alveg tekið upp á því aftur á sunnudaginn,“ sagði þjálfarinn að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×