Viðskipti innlent

Karen Millen reið út í slitabú Kaupþings

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Karen Millen
Karen Millen MYND/Úr einkasafni
Breska tískuverslanakeðjan Karen Millen hefur verið áberandi í breskum fjölmiðlum undanfarið. Forstjóri fyrirtækisins, Mike Shearwood, hætti í byrjun september eftir að hafa, ásamt öðrum stjórnendum, mistekist í viðleitni sinni að kaupa félagið frá núverandi eigendum, Aurora Fashions. Stærstu hluthafar Aurora Fashions er slitabú gamla Kaupþings, en félagið á einnig verslanakeðjurnar Oasis, Coast og Warehouse.

Sjálf hefur Karen Millen, stofnandi verslanakeðjunnar og eigandi til margra ára, lýst yfir óánægju sinni með núverandi eignarhald merkisins sem heitir eftir henni. Karen sagði í viðtali við Guardian fyrir nokkru að hún skammaðist sín fyrir þá stefnu sem fyrirtækið hefði tekið undanfarin misseri og klæddist aldrei fötum frá þeim. Þá hefur henni verið meinað að nota vörumerkin Karen né KM, sem hún hafði hug á að gera, hefji hún rekstur tískuvörufyrirtækis á ný.

Hvernig er að eiga ekki lengur eigið nafn?

„Ég seldi nafnið mitt og merkið sem ég hafði byggt frá grunni árið 2004 til Mosaic Fashions. Út úr samningum fékk ég bæði greiðslu og hlut í félaginu, sem ég taldi góða fjárfestingu. Árið 2009 fór Mosaic Fashions í gjaldþrotaskipti og ég missti minn hlut í fyrirtækinu. Þá komu Aurora fram sem nýir eigendur og nú vilja þeir nota mitt nafn á annan hátt en um var samið árið 2004. Ég er mjög reið, eins og gefur að skilja,” útskýrir Karen.

Karen MillenMynd/Úr einksafni
Gjaldþrotaskipti Mosaic Fashions voru umdeild í Bretlandi. Sama dag og tilkynnt var um gjaldþrot félagsins, var meginþorri þess seldur aftur til Kaupþings, en Kaupþing var líka í slitameðferð. Nafni félagsins var breytt í Aurora Fashions. Fyrirtækið skilaði ágætis hagnaði á erfiðum markaði, með merkið Karen Millen í broddi fylkingar.

Karen Millen stofnaði merkið sjálf ásamt þáverandi eiginmanni sínum Kevin Stanford árið 1981. Þá fengu þau hjónin 100 punda lán, sem í dag jafngildir tæplega tuttugu þúsund íslenskum krónum, og hófu að hanna, búa til og selja hvítar skyrtur. Fyrst um sinn seldu þau bara vinum sínum skyrtur, en árið 1983 opnuðu þau saman fyrstu verslunina undir merkjum Karen Millen í Kent í Englandi.

Fyrirtækið óx hratt og má nú finna verslanir Karen Millen víða í Evrópu, Asíu og Ástralíu svo eitthvað sé nefnt. Millen og Stanford, sem skildu árið 2001 héldu áfram að starfa saman í viðskiptum eftir skilnaðinn. Þau tengdust íslensku viðskiptalífi nánum böndum, en ásamt þeim áttu hluti í Mosaic Fashion Baugur Group. Þá áttu þau í viðskiptum við Kaupþing í Lúxemborg. Þegar fjármálahrunið varð misstu þau nærri allt sitt í hendur bankanna.

Stanford átti auk hluts í Mosaic Fashion, hlut í Materia Invest með þeim Magnúsi Ármanni og Þorsteini Jónssyni, gjarnan kenndum við Vífilfell.

Sjálf hefur Karen Millen, stofnandi merkisins og eigandi þess til margra ára, lýst yfir óánægju sinni með núverandi eignarhald merkisins. 

Finnst þér nýir eigendur hafa brugðist hlutverki sínu? 

„Við skulum bara orða það sem svo að ég er mjög sorgmædd að sjá fyrirtækið sem ég og fyrrverandi eiginmaður minn byggðum og seldum fyrir ellefu árum í krísu og að tapa peningum.”

Sjálf hyggst Karen aftur ætla út í viðskipti, með einum hætti eða öðrum, þó það verði ekki endilega undir merkjum Karen Millen.

„Börnin mín eru orðin fullorðin og ég hef allan þann tíma og orku sem til þarf. Ég er tilbúin að takast á við nýjar áskoranir og get ekki beðið eftir að fara aftur að vinna.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×