Lífið

Kapúsínamunkar í Reyðarfirði hjálpa ferðamönnum í neyð

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Íslenskt vetrarmyrkur getur verið þrúgandi. Peter á ráð við því, fær sér nóg af hvítu súkkulaði og spilar kántrítónlist. Hann hefur líka nóg að gera í risastórri sókn fyrir austan.
Íslenskt vetrarmyrkur getur verið þrúgandi. Peter á ráð við því, fær sér nóg af hvítu súkkulaði og spilar kántrítónlist. Hann hefur líka nóg að gera í risastórri sókn fyrir austan. Visir/Anton brink
Peter Kovácik ferðast einu sinni í mánuði frá Reyðarfirði til Reykjavíkur á fund presta í Landakotskirkju. Hann er í reglu kapúsína, eða hettumunka, sem starfa í klaustri á Kollaleiru á Austfjörðum. Klaustrið er það fyrsta hér á landi frá siðaskiptum og Peter og tveir aðrir reglubræður hans vinna hörðum höndum að uppbyggingu þess.



Kapúsínar eru ein regla af mörgum sem eiga uppruna hjá Frans frá Assisi. Heiti reglunnar er dregið af háum, toppmynduðum hettum reglubræðra sem þeir bera yfir brúnum kuflum. Regla kapúsínabræðra var stofnuð á Ítalíu í upphafi 16. aldar.



Sóknin spannar 700 kílómetra

Munk­ar í kapús­ínaregl­unni lifa í sam­fé­lög­um og iðka fá­tækt. Þeir leggja stund á handa­vinnu, helga sig hug­leiðingu og boðun fagnaðar­er­ind­is­ins, sjá um fá­tæka og sjúka, kenna og pré­dika. Munk­ana ein­kenn­ir ein­fald­leiki, hjálpfýsi og glaðværð.



Peter notar ferðina til Reykjavíkur að sjálfsögðu einnig til að kaupa góðgæti til jólanna. „Við strákarnir úr sveitinni kaupum eitthvað gott á jólaborðið og kannski líka einhverjar jólaskreytingar,“ segir Peter og segist aðspurður ekki hafa áætlað að leggja leið sína í Costco. „En það er ágætis hugmynd,“ segir hann.



Þrír munkar búa og starfa á Kollaleiru og það er nóg að gera því sóknin spannar 700 kílómetra.



„Sóknin nær frá Skaftafelli til Raufarhafnar og það eru eru 650 í okkar sókn og það er því nóg að gera, sérstaklega um helgar,“ segir Peter en munkarnir keyra á milli bæja á jepplingi í öllum veðrum.



„Við erum mikið á ferðinni um helgar. Dæmigerður dagur hjá okkur hefst með bænastund klukkan átta á morgnana. Við fáum okkur morgunverð og þá er bænastund aftur um hádegið. Allan daginn sinnum við svo byggingarverkefnum, fræðslu og kennslu en við undir­búum börn undir þeirra fyrstu altarisgöngu eða fermingu,“ segir Peter, „en fimmtán börn í sókninni eru að læra til altarisgöng og um tíu til tólf börn læra undir fyrsta sakramenti eða fermingu. Það eru margir í kaþólskum söfnuði hér fyrir austan,“ segir Peter frá.



Svaf í svefnpoka í jarðgöngunum

Jólin eru annasamur tími. Þá geta veður orðið vond. „Ég byrja á því að fara á Höfn í Hornafirði þar sem verður messa, þaðan fer ég á Djúpavog til messu klukkan fjögur og aftur til Reyðarfjarðar þar sem verður messa klukkan tíu um kvöld. Stundum getur þetta orðið erfitt, sérstaklega ef það gerir vont veður. Ég hugsa að það hafi verið fyrir um tveimur árum sem gerði aftakaveður. Það var mjög hvasst, örugglega allt að 60 metrar á sekúndu. Þegar ég átti stutt eftir að klaustrinu, rétt kominn úr jarðgöngunum, festist ég í skafli. Þetta var seint um kvöld og ég átti stutt eftir heim. Ég náði að moka bílinn út og bakka inn í jarðgöngin. Þar svaf ég í svefnpoka þar til óveðrinu slotaði,“ segir hann.



Peter var rétt rúmlega tvítugur þegar hann fékk köllun. „Ég vissi ekki hvað var að gerast. Bróðir minn var í prestaskóla í Róm og við fórum nokkur að heimsækja hann. Ég var að bíða eftir rútu eftir messu þegar ég heyrði rödd innra með mér sem sagði: Komdu að fylgja mér. Ég var í Róm í nokkrar vikur og þetta sótti á mig. Ég ákvað loks að ræða þetta við vini mína og þeir sögðu mér frá því þegar þeir fengu sína köllun. Þá skildi ég þetta. Ég vissi að guð væri að kalla á mig í þjónustu sína. Ég vissi hins vegar að ég væri ekki þeirrar gerðar að verða prestur. Ég er ekki nógu sterkur. Ég hafði þörf fyrir að sinna köllun minni í samfélagi við aðra,“ segir Peter.



„Það eru um sex reglur sem eru allar greinar út frá heilögum Frans frá Assisi. Ég heimsótti þær allar og kynnti mér samfélögin og starf þeirra. Að lokum stóð valið á milli reglu jesúíta og kapúsína. Ég valdi reglu kapúsína sem vilja vera bræður allra í samfélaginu og vera nálægt guði.



Ég var athafnamaður og gaf allt sem ég átti. Ég var 23 ára gamall. Fyrir síðustu aurana keypti ég mér ferð til landsins helga. Reglubræður tóku vel á móti mér og kenndu mér. Ég kom svo til Íslands í fyrsta sinn árið 2005 á þriggja mánaða námskeið. Ég flutti árið 2007 og hef því nú búið hér í tíu ár.“





Peter og munkarnir á Kollaleiru keyra á milli bæja um jólin á jepplingi. Stundum eru veður vond og þá vandast málin. Visir/Antonbrink


Góðar móttökur á Íslandi

Peter talar nærri lýtalausa íslensku og segir móttökur á Reyðarfirði hafa verið hlýjar.



„Við fengum mikla hjálp, við reglubræður sem fluttumst hingað. Það er sérstakt í fari Íslendinga hvað þeir eru hjálpsamir. Við fórum í það verkefni að endurbyggja gamalt hús og breyta því í klaustur. Við erum í byggingarvinnu og viðhaldi hvað það varðar. Við fengum mikla leiðsögn um bygginguna og efnivið og tæki. Mér finnst viðmótið dýrmætt. Ég er húsgagnasmiður og mikið af vinnu minni fyrir austan fer í byggingu og viðhald, ég geri við húsgögn, smíða þau, endurgeri og laga.“



Peter og reglubræður hans taka þátt í samfélagshjálp til bágstaddra í Fjarðabyggð. „Við gerum það í samstarfi við bæinn og hjálparsamtök á borð við Mæðrastyrksnefnd. Við útdeilum til dæmis úr sérstökum jólasjóði og ef einhver kemur og biður okkur um hjálp, þá finnum við út úr því,“ segir Peter.



Það eru ekki bara bágstaddir Íslendingar sem njóta hjálpfýsi reglubræðra. Ferðamenn sem koma til landsins hafa beðið þá um aðstoð.



„Við höfum hjálpað ferðamönnum sem koma hingað og eiga ekki fyrir mat eða gistingu. Þeir hafa kannski keypt sér ódýran flugmiða, koma svo hingað og þá kemur þeim á óvart hvað það er dýrt að lifa á Íslandi. Þeir kvarta undan verði á gistingu og mat. Við höfum skotið yfir þá skjólshúsi og náð í mat úr frystikistunni.“



Hvítt súkkulaði og kántrí

Petur segir að með aldrinum finnist honum sífellt erfiðara að höndla vetrarmyrkrið en á við því gott ráð.

„Íslendingar drekka kaffi. Ég borða hins vegar mikið af hvítu súkkulaði,“ segir Peter og klappar á bumbuna á sér. „Þess vegna er ég svona vel í holdum,“ segir hann og skellir upp úr.



Þeir reglubræður gera ýmislegt annað sér til dægrastyttingar en að borða súkkulaði. „Við spilum músík. Ég er mikill aðdáandi kántrítónlistar, hlusta á kántrítónlist frá Tyrklandi og Slóvakíu,“ segir hann.

Peter greinir frá því að það hafi fjölgað mjög mikið í kaþólska söfnuðinum síðustu ár. Svo mikið að biskupinn yfir kirkjunni á Íslandi leiti um allan heim að prestum og reglubræðrum til starfa.



„Á þessu ári eru nýskráðir í kringum fimm hundruð manns. Kaþólskir eru um fjögur prósent hér á Íslandi þannig að af því má sjá að vöxturinn er mjög mikill og biskupinn leitar að prestum til starfa.“



Peter segist aldrei hafa séð eftir ákvörðun sinni. „Mér finnst ég njóta gæfu að hafa fengið köllun. Lífið er gott.“



Súrkálssúpa og fiskur í jólamatinn

En er eitthvað sem kapúsína­munkar mega ekki gera? Þurfa þeir að fylgja ákveðnum lífsreglum?

„Það er ekki svo neikvætt í mínum huga. Ég hugsa ekki um að ég megi ekki gera hluti. Mig langar til dæmis ekki að kvænast. Við megum drekka áfengi en ég vel að gera það ekki. Við föstum stundum og biðjum. Líf okkar er í auðmýkt og gleði. Við viljum vera nálægt guði og hjálpa samferðafólki okkar.“



Nú þegar jólahátíðin nálgast huga bræðurnir að matargerð. Íslensk matargerð finnst Peter ekkert ólík slóvanskri. „Nei, matargerðin hér er ekkert endilega allt öðruvísi. Slóv­ökum finnst að vísu skrýtið að borða hákarl og skötu. Mér finnst skata hins vegar góð og ætla að borða hana á Þorláksmessu. Á jólunum borðum við kartöflusalat, fisk og súrkálssúpu,“ segir Peter um jólahefðir í klaustrinu fyrir austan sem tengjast upprunanum.

*Viðtalið við Peter er fyrsti hluti af tíu í umfjöllun um trúarlíf Íslendinga í Fréttablaðinu. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×