Enski boltinn

Kante efstur á óskalista Arsenal sem berst fyrir því að halda Sánchez

Tómas Þór Þórðarson skrifar
N'Golo Kante hefur verið magnaður í liði Leicester.
N'Golo Kante hefur verið magnaður í liði Leicester. vísir/getty
Fram kemur í slúðurdálkum ensku blaðanna í morgun að franski miðjumaðurinn N'Golo Kante sé eftur á óskalista Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal, í sumar.

Kante hefur spilað stórkostlega fyrir Leicester sem er þremur stigum frá Englandsmeistaratitlinum en Kante hefur svo sannarlega verið ein af óvæntum hetjum tímabilsins.

Wenger hefur leitað að alvöru manni í stöðu varnarsinnaðs miðjumanns í langan tíma og hefur verið á höttunum eftir Victor Wanyama, Keníamanninum í liði Southampton, undanfarin misseri.

Kante, sem hefur átt flestar heppnaðar tæklingar í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni, var einn af fjórum leikmönnum Leicester sem var valinn í lið ársins af leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar, en hann kom til Englands frá Caen í Frakklandi.

Á meðan Wenger þarf að berjast fyrir því að fá Kante þarf hann einnig að berjast fyrir því að halda einni af ofurstjörnum sínum, Alexis Sánchez.

Sílemaðurinn er sagður á óskalista Bayern München sem ætlar sér að landa framherjanum í sumar. Gæti hann verið ætlaður sem eftirmaður Robert Lewandowski ef framherjinn yfirgefur Bæjara eftir tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×