Erlent

Kanslari Þýskalands vill vernda hluta norðurslóða

Heimir Már Pétursson skrifar

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði í ávarpi til Arctic Circle ráðstefnunnar í Hörpu í dag að afleiðingar hlýnandi loftslags væru augljósar á Norðurheimsskautinu. Mikilvægt væri að setja vissi svæði á Norðurslóðum undir sérstaka vernd.



Fjórtán hundruð manns frá 34 löndum sækja Arctic Circle ráðstefnuna í Hörpu. En forseti Íslands staðfesti í viðtali við Stöð 2 í gær að þetta verði framvegis árlegur viðburður í októbermánuði í Reykjavík. Angela Merkel kanslari Þýskalands ávarpaði samkomuna í morgun.



Þýskalandskanslari ávarpaði gesti Arctic Circle á myndbandi og sagði ráðstefnuna þegar hafa náð einu meginmarkmiða sinna sem væri að auka skilning á mikilvægi Norðurskautsins á stjórnmálasviðinu.



„Norðurslóðir eru langt í frá einangrað svæði því það sem gerist þar hefur áhrif stóran hluta heimsins. Þetta þýðir að alþjóðasamfélagið ber sameiginlega ábyrgð á svæðinu hvað varðar utanríkis- og öryggismál og stefnuna í efnahags- og umhverfismálum,“ sagði Merkel í ávarpi sínu.



Arctic Circle ráðstefnan sem stendur til sunnudags er einstakur vettvangur þar sem allir þeir sem láta sig umhverfismál varða eiga aðkomu, hvort sem það eru fulltrúar ríkja, rannsóknarstofnana, hagsmunasamtaka, vísindamanna eða einstaklingar. En Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, sem er einn aðalhvatamaðurinn að stofnun ráðstefnunnar, segir markmiðið einmitt að reyna að fá alla til að róa saman að sameiginlegu markmiði. Brýnast sé að þjóðir komi sér saman um meginreglurnar og regluverkið til að marka veginn til framtíðar.



Angela Merkel tók undir þetta í sínu ávarpi og sagði jafnframt mikilvægt að tiltekin svæði á norðurslóðum nytu verndar.



„Það er hins vegar mun erfiðara að hafa stjórn á afleiðingum umhverfisslysa. Það gerir það enn meira áríðandi að stefnan varðandi norðurslóðir sé mótuð með varkárni. Ég yrði því ánægð ef við gætum náð samkomulagi um að tiltekin svæði á norðurslóðum nytu sérstakrar verndar. En svæðið hefur nú þegar unnið sér táknræna stöðu í baráttunni gegn loftslagsbreytingunum,“ sagði Angela Merkel kanslari Þýskalands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×