Erlent

Kanslari í klípu vegna njósnamála

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Sigmar Gabriel varakanslari og Angela Merkel kanslari.
Sigmar Gabriel varakanslari og Angela Merkel kanslari. Vísir/EPA
Meira en þriðjungur Þjóðverja segist trúa því að Angela Merkel kanslari hafi blekkt þjóðina varðandi símhleranir Bandaríkjamanna þegar kosningabaráttan í Þýskalandi stóð sem hæst haustið 2013.

Þetta kom fram nú í vikunni þegar birt var skoðanakönnun sem Forsa gerði fyrir tímaritið Stern og sjónvarpsrásina RTL.

Alls telja 37 prósent svarenda að Merkel hafi blekkt þjóðina. Meira að segja 22 prósent hennar eigin flokksmanna eru þessarar skoðunar. Og 38 prósent fylgjenda Sósíaldemókrataflokksins, samstarfsflokks Kristilegra demókrata í ríkisstjórn Merkel, sömuleiðis.

Þjónkun við BandaríkinMálið snýst um að Merkel hafi, í miðri kosningabaráttu árið 2013, vísvitandi blekkt kjósendur með því að gefa í skyn að Þýskaland og Bandaríkin muni gera með sér samning um að stunda ekki njósnir um hvort annað. Eftir á hafi komið í ljós að Bandaríkjamenn hafi aldrei haft í hyggju að gera slíkan samning, þótt Merkel hafi gert sér vonir um það.

Þessu tengjast svo uppljóstranir um að þýska leyniþjónustan BND hafi beinlínis aðstoðað bandarísku leyniþjónustuna NSA við að safna upplýsingum um þýsk fyrirtæki og stofnanir. Háværar kröfur hafa verið um að birtur verði opinberlega listi yfir hundruð fyrirtækja og stofnana, sem Bandaríkin hafa haft sérstakan áhuga á bæði í Þýskalandi og fleiri Evrópulöndum. 

Gerhard Schindler, yfirmaður BND, hefur viðurkennt að starfsmenn hans hafi aðstoðað Bandaríkin við að afla upplýsinga um þessar stofnanir og fyrirtæki. Hann viðurkennir jafnframt að þýska leyniþjónustan hafi gert mörg og alvarleg mistök í samskiptum sínum við bandarísku leyniþjónustuna. 

Reyndar virðist hann hafa mestar áhyggjur af því að umræðan í Þýskalandi verði til þess að skaða samstarf bandarísku og þýsku leyniþjónustunnar. „Við erum háð NSA, en ekki öfugt,“ er haft eftir honum á vef þýsku sjónvarpsstöðvarinnar N-tv.

Í miðri kosningabaráttuÍ byrjun júní 2013, nokkrum mánuðum fyrir síðustu þingkosningar í Þýskalandi, birtust fyrstu uppljóstranirnar frá Bandaríkjamanninum Edward Snowden, þar sem heimsbyggðin fékk staðfestingar á því að bandarískir leyniþjónustumenn hefðu í stórum stíl safnað upplýsingum um farsímanotkun einstaklinga, stofnana og fyrirtækja víða um heim.

Merkel brást ekki mjög hart við þessum uppljóstrunum fyrr en síðar, þegar ljóst var orðið að njósnað hafði verið um hana sjálfa. Þvert á móti sagðist hún bera fullt traust til Bandaríkjanna. „Við eigum ekki lengur í köldu stríði,“ sagði talsmaður hennar, Steffen Seibert. 

Almenningur í Þýskalandi lét sér þetta þó ekki nægja og verulegur þrýstingur var á Merkel um að láta Bandaríkin ekki komast upp með hleranirnar.

Samningurinn margboðaðiÞýsk stjórnvöld brugðust svo við þessum þrýstingi með því að segjast stefna að því að gera samning við Bandaríkin um að hvorugt ríkið myndi stunda njósnir um hitt. Þann 12. ágúst fullyrti Ronald Pofalla, skrifstofustjóri kanslaraskrifstofunnar, að Bandaríkin hefðu gert tilboð um slíkan samning.

Þessi yfirlýsing róaði kjósendur nokkuð, og þýskir ráðamenn héldu áfram að vísa í væntanlegan samning við Bandaríkin. Nú er hins vegar komið í ljós að Bandaríkjamenn hafi aldrei haft neinn áhuga á því að gera slíkan samning, og að þýskum stjórnvöldum hefði átt að vera það fyllilega ljóst. Því til staðfestingar hafa nokkur þýsk dagblöð birt tölvupóstsamskipti milli bandarískra og þýskra stjórnvalda frá þessum tíma, en þar kemur fram að það næsta sem Bandaríkin komust því að lofa samningi var þegar James Clapper, yfirmaður bandarísku njósnastofnananna, sagðist tilbúinn til þess að setja á stofn sameiginlega nefnd landanna, þar sem ræða mætti hvernig slíkur samningur yrði úr garði gerður. Sjálfur hefði hann hins vegar ekkert umboð til þess að taka ákvarðanir um slíkt.

Merkel brást viðÞað var ekki fyrr en Angela Merkel frétti af því síðla árs 2013, nokkru eftir að þingkosningum lauk, að starfsmenn bandarísku Þjóðaröryggisstofnunarinnar NSA hefðu hlerað síma hennar, að hún brást ókvæða við og krafðist bæði ítarlegra skýringa og afsökunarbeiðni frá Bandaríkjunum. Málið þótti ekki síst óþægilegt fyrir hana vegna þess að hún ólst upp í Austur-Þýskalandi, þar sem símhleranir stjórnvalda voru daglegt brauð.

Hún hringdi í Barack Obama Bandaríkjaforseta og áttu þau langt símtal, þar sem hún sagði slíkt framferði ekki líðandi af hálfu Bandaríkjanna. Alvarlegur trúnaðarbrestur hefði orðið. Obama sagðist vera leiður vegna þessa máls, en fullyrti jafnframt að Bandaríkin væru ekki að fylgjast með símtölum kanslarans, og hefðu ekki í hyggju að gera það. 

Merkel var greinilega ósátt, en ekki er annað að sjá en að hún hafi látið Bandaríkjamenn fara sínu fram án frekari aðgerða. Það virðist nú vera að koma í bakið á henni.

Gabriel ósátturMál þessi virðast farin að reyna töluvert á ríkisstjórnarsamstarf Kristilegra demókrata með Sósíaldemókrötum. Sigmar Gabriel, sem er efnahagsráðherra stjórnarinnar, varakanslari og leiðtogi Sósíaldemókrata, segir að Merkel verði nú að fara að standa í lappirnar gagnvart Bandaríkjamönnum og leggja spilin á borðið. Birta þurfi listann umdeilda. 

Orðaskipti þeirra Gabriels og Merkel hafa annars ekki farið fram opinberlega, en Volker Kauder, þingflokksformaður Kristilegra demókrata, segir harðan tón hafa verið í samræðum þeirra og framkoma Gabriels hafi verið ólíðandi.

Merkel segist sjálf engu að síður enn njóta fulls trúnaðartrausts af hálfu Gabriels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×