Innlent

Kannast ekkert við að hafa skrifað byssupistil á blogg Björns Bjarnasonar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Hvað varð til þess að höfundur notaði nafn mitt veit ég ekki en dálítið spes verð ég að segja,“ skrifar Bjarkey.
„Hvað varð til þess að höfundur notaði nafn mitt veit ég ekki en dálítið spes verð ég að segja,“ skrifar Bjarkey.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaformaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, skilur hvorki upp né niður í því hvers vegna hún er merkt fyrir pistli á bloggsíðu Björns Bjarnasonar fyrrverandi dómsmálaráðherra.

Ráðherrann fyrrverandi heldur úti bloggsíðunni bjorn.blog.is og birtir í dag pistil í tilefni frétta af nýtilkominni vopnaeign íslensku þjóðarinnar. Pistillinn er í anda fyrri pistla Björns og ekkert sem bendir til annars en að hann hafi sjálfur skrifað hann. Rifjar hann upp hlutverk Landhelgisgæslunnar og skammar fjölmiðla fyrir að hafa farið offari í umfjöllun sinni undanfarna daga.

Skjáskot af bloggsíðu Björns Bjarnasonar um miðnætti.
„Að landhelgisgæslan annist umsýslu vopna inna ramma þessa verkefnis er eðlilegur þáttur í framkvæmd þess. Nú liggur fyrir að vopn frá Norðmönnum eru í vörslu gæslunnar og ranglega hefur verið skýrt frá afhendingu þeirra til ríkislögreglustjóra,“ segir meðal annars í pistlinum.

Borgarstjórinn í Reykjavík fær að kenna á því í skrifum ráðherrans sem og þingmenn stjórnarandstöðunnar með Pírata í broddi fylkingar. Ekki vefst fyrir neinum hver skrifar pistilinn fyrr en að lestrinum loknum. Undir pistilinn kvittar nefnilega Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

„Skerí stuff,“ segir Margrét Tryggvadóttir.Mynd/Alþingi
„Hvað varð til þess að höfundur notaði nafn mitt veit ég ekki en dálítið spes verð ég að segja,“ skrifar Bjarkey í Fésbókarfærslu í kvöld. Sver hún af sér pistilinn.

Líklegt má telja að Sjálfstæðismaðurinn hafi gert einhver mistök við að afritun texta. Sú er að minnsta kosti ágiskun Margrétar Tryggvadóttur fyrrverandi þingmanns fyrir Borgarahreyfinguna og síðar Hreyfinguna.

„Hann hefur örugglega copy/pastað eitthvað sem hvarf en nafnið þitt varð eftir. Skerí stöff,“ skrifar Margét við færslu Bjarkeyjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×