Körfubolti

Kanínurnar skoruðu bara 41 stig í stórtapi á heimavelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Guðjónsson þjálfar lið Svendborg Rabbits.
Arnar Guðjónsson þjálfar lið Svendborg Rabbits. Vísir/Andri Marinó
Svendborg Rabbits, lið Arnars Guðjónssonar, steinlá á heimavelli á móti Bakken Bears í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Bakken Bears vann leikinn 75-41 eða með 34 stigum en liðsmenn Svendborg Rabbits hittu aðeins úr 15 af 69 skotum sínum í leiknum sem gerir 22 prósent skotnýtingu.

Axel Kárason spilaði í 23 mínútur í leiknum og var með 2 stig og 4 fráköst.

Bakken Bears gaf tóninn strax í byrjun með því að vinna fyrsta leikhlutann 20-6 og liðið gerði illt verra fyrir Kanínurnar með því að vinna seinni hálfleikinn 43-20.

Svendborg Rabbits hefur unnið helming leikja sinna í vetur en Bakken Bears liðið er í öðru sæti með 9 sigra í 10 leikjum.

Það er ljóst á þessum úrslitum að Arnar Guðjónsson mun fagna komu Stefan Bonneau til liðsins enda þarf augljóslega að koma með meira púður í sóknarleik liðsins.

Það er svo sem ekki alslæmt að fá á sig 75 stig en 41 stig á heimavelli er ekki boðlegt fyrir lið í efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×