Enski boltinn

Kane skoraði miklu örar en næstu menn á markalistanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane.
Harry Kane. Vísir/Getty
Það hjálpar honum reyndar heilmikið að hafa skorað sjö mörk í síðustu viku tímabilsins en Harry Kane tryggði sér Gullskóinn í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Harry Kane varð sá fjórði í sögunni sem nær því að verða markakóngur ensku úrvalsdeildarinnar tvö ár í röð en þessi 23 ára framherji Tottenham er að ná tvennunni miklu fyrr á ferlinum en hinir þrír sem eru Alan Shearer, Thierry Henry og Robin van Persie.

Þetta er þriðja tímabilið í röð sem Kane kemst yfir tuttugu marka múrinn og það sem meira er hann hefur hækkað markaskor sitt á hverju tímabili, fór úr 3 mörkum (2013/14), í 21 mark (2014/15), í 25 mörk (2015/16) og loks í 29 mörk á þessu tímabili.

Kane hefur nú skorað 75 mörk í 102 leikjum á síðustu þremur tímabilum sem eru fimm mörkum meira en Sergio Aguero og 22 mörkum meira en þriðji maður á lista.

Það sem kannski athyglisverðast í samanburðinum á Kane og næstu mönnum er sú staðreynd að hann náði þessum 29 mörkum í aðeins 30 leikjum. Það kom ekki að sök fyrir hann að hafa misst af átta leikjum á tímabilinu eða 21 prósent þess.

Kane skoraði nefnilega á 87 mínútna fresti í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni sem er miklu örar en næstu menn á markalistanum. Sá sem kemst næst honum er einmitt Sergio Agüero hjá Manchester City sem skoraði á 120 mínútna fresti. Þarna munar 33 mínútum eða þriðjungi úr leik.

Markahæstu menn ensku úrvalsdeildarinnar 2016/17 og mínútur milli marka:

1. Harry Kane, Tottenham Hotspur Tottenham 29 mörk - 87 mínútur milli marka

2. Romelu Lukaku, Everton FC Everton 25 mörk - 131 mínúta

3. Alexis Sánchez, Arsenal 24 mörk - 134 mínútur

4. Sergio Agüero, Manchester City 20 mörk - 120 mínútur

4. Diego Costa, Chelsea 20 mörk - 154 mínútur


Tengdar fréttir

Markakóngur annað árið í röð

Harry Kane skoraði þrennu þegar Tottenham rústaði Hull City, 1-7, í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×