Enski boltinn

Kane hyggst nýta meðbyrinn frá HM til að aflétta ágústbölvuninni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Harry Kane.
Harry Kane. vísir/getty
Harry Kane stimplaði sig endanlega inn sem einn allra öflugasti markaskorari heims með því að hreppa gullskóinn á HM í Rússlandi en hann skoraði sex mörk í keppninni og var markahæstur allra.

Kane hefur raðað inn mörkum fyrir Tottenham Hotspurs undanfarin ár og hélt uppteknum hætti í Rússlandi þar sem hann bar einnig fyrirliðaband Englands sem hafnaði í 4.sæti á mótinu.

Nú tekur við kærkomið sumarfrí hjá Kane og öðrum leikmönnum sem voru á HM en það mun líklega ekki vara lengi þar sem það styttist óðum í að flautað verði til leiks í ensku úrvalsdeildinni.

Kane er strax farinn að leiða hugann að næstu leiktíð með Spurs og er staðráðinn í að aflétta ágústbölvun sinni en þó kappinn hafi verið á meðal markahæstu leikmanna úrvalsdeildarinnar undanfarin tímabil hefur honum aldrei tekist að skora í ágústmánuði.

„Ég vona að ég verði tilbúinn í fyrsta leik og vonandi tekst mér að skora í ágústmánuði þetta árið,“ segir Kane.

„Það eru ekki margir sem geta sagt að þeir eigi gullskó frá Heimsmeistarakeppninni. Þetta er stórt afrek. Ég sagði fyrir keppnina að ég myndi vilja sanna mig á svona stóru sviði.“

Kane leiddi sóknarlínu Englands á EM í Frakklandi árið 2016 og tókst ekki að skora mark í keppninni.

„EM var vonbrigði fyrir mig og ég vildi sýna öllum að ég gæti skorað í lokakeppni stórmóts. Ég hef skorað á öllum öðrum stigum leiksins og það var mikilvægt að ná þessum áfanga. Ég er mjög stoltur og það mun taka einhvern tíma að átta sig almennilega á þessu,“ segir Kane um markakóngstitilinn á HM.

Keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst föstudaginn 10.ágúst næstkomandi með leik Man Utd og Leicester. Kane og félagar í Tottenham byrja mótið á útivelli gegn Newcastle í hádegisleik laugardaginn 11.ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×