Enski boltinn

Kane: Væri til í að vera allan minn feril hjá Tottenham

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kane í leik gegn Palace um síðustu helgi.
Kane í leik gegn Palace um síðustu helgi. vísir/getty
Svo hamingjusamur er framherjinn Harry Kane hjá Tottenham að hann er vel til í að vera allan sinn feril hjá Lundúnafélaginu.

Kane var markahæstur í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð með 25 mörk og Spurs var lengi í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn.

Þó svo Kane sé aðeins 23 ára gamall þá virðist hann ekki ganga með í maganum draum um að spila annars staðar.

„Það væri frábært að spila bara hérna. Félagið er á frábærum stað og við erum alltaf að færa okkur fram á við. Það skiptir miklu máli. Á meðan félagið á sér framtíðarsýn og við stöðnum ekki þá er þetta flott,“ sagði Kane.

„Hér er allt til staðar. Ungur og flottur leikmannahópur ásamt frábærum stjóra. Gott æfingasvæði og nýr völlur á leiðinni. Ég væri meira en til í að vera hér allan ferilinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×