Erlent

Kanadamenn stefna að lögleiðingu líknardráps

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Justin Trudeau er forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau er forsætisráðherra Kanada. vísir/epa
Fyrir kanadíska þinginu liggur nú frumvarp sem gerir það löglegt að svipta sig lífi með hjálp lækna. Frumvarpið var kynnt til sögunnar í apríl af ríkisstjórn Justin Trudeau. Samkvæmt því verður fólki með ólæknanlega sjúkdóma eða varanlega fötlun gert kleift að binda enda á líf sitt með aðstoð lækna kjósi það svo. Fjallað er um málið á vef Reuters.

„Það er fólk sem telur að við hefðum átt að ganga lengra með frumvarpinu en svo eru aðrir sem telja að við höfum nú þegar farið of langt,“ sagði Justin Trudeau á ráðstefnu sem fram fór í Winnipeg í dag. Með því vísaði hann til þess að fólk er ekki sammála um hvort veita eigi ungmennum og fólki með geðræna kvilla þennan rétt.

„Við verðum að vera ábyrg og skynsöm þegar við stígum þetta fyrsta skref. Það er vandasamt verk að finna jafnvægið á milli þess að vernda þá sem minna mega sín og að tryggja frelsi og réttindi einstaklingsins. Ég er viss um að okkur hefur tekist það vel.“

Lagabreytingin er lögð til í kjölfar þess að dómur féll í hæstarétti landsins í júní í fyrra þar sem bann gegn líknardrápi var talið brjóta gegn stjórnarskrárvörðum réttindum einstaklingsins. Dómstóllinn gaf þinginu frest til 6. júní í ár til að gera breytingar á löggjöfinni ellegar gæti fólk með „alvarlega og ólæknandi“ sjúkdóma farið fram á líknardráp.

Flokkur Trudeau hefur meirihluta í fulltrúadeild kanadíska þingsins en ekki í öldungadeildinni. Frumvarpið verður að hljóta samþykki á báðum stigum til að ná fram að ganga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×