Innlent

Kampakátur íbúi á Egilsstöðum fékk 15 skattfrjálsar milljónir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það má gera ýmislegt við 15 milljónir á Austurlandi.
Það má gera ýmislegt við 15 milljónir á Austurlandi. Vísir
Egilsstaðabúi á sextugsaldri brosir líklega hringinn eftir að hafa fengið fyrsta vinning í happdræti DAS en dregið var í dag. 

Aðalvinningurinn að þessu sinni var íbúð að eigin vali að verðmæti 30 milljónir króna á tvöfaldan miða.

Vinningurinn kom hins vegar upp á einfaldan miða að þessu sinni, á miðanúmerið 10871.

Miðaeigandinn, rúmlega fimmtugur íbúi á Egilsstöðum fékk því 15 milljónir í hans hlut sem lagðar verða inn á bankareikning hans. Vinningurinn er skattfrjáls og því má segja að þetta séu 28 milljónir í launaumslagi.

Í tilkynningu frá DAS segir að maðurinn hafi orðið bæði undrandi og glaður við þessi tíðindi og sagðist fara inn í helgina með bros á vör hvernig sem viðrar. Hann óskaði nafnleyndar.

Næsti íbúðarvinningur verður dreginn út 8. október að verðmæti 30 milljónir á tvöfaldan miða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×